Innlent

Í fangelsi fyrir hættulega líkamsárás gegn unnustu sinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty

Hæstiréttur hefur lengt fangelsisdóm yfir manni sem dæmdur var fyrir að ganga í skrokk á unnustu sinni í sérstaklega hættulegri líkamsárás Hann var dæmdur fyrir að hafa sparkað og slegið í andlit hennar og líkama og slegið hana í höfuðið með kristalkertastjaka. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir áfengisakstur.

Konan hlaut töluverða áverka.

Um var að ræða tvær árásir. Önnur átti að eiga sér stað 22. ágúst 2010 og hin þann 10. febrúar 2013. Konan kærði vegna beggja árásanna í febrúar 2013. Hins vegar fékkst fyrri árásin ekki sönnuð fyrir dómi. Konan fór á sjúkrahús og fékk áverkavottorð, en ekki þótti sannað að unnusti hennar hefði veitt henni þá áverka.

Í seinni árásinni voru lögregluþjónar kallaðir að heimili þeirra vegna hávaða.

Maðurinn bar fyrir sig sjálfsvörn en lögreglan fann á honum tvo síma sem konan átti og var annar þeirra brotinn. Konan hafði þá reynt að hringja á lögreglu og þótti það að maðurinn hefði stöðvað hana til marks um hann hefði ekki átt hendur sínar að verja fyrir árásum konunnar, eins og það er orðað í dómnum.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar þar sem maðurinn hafði lýst því yfir að hann myndi áfrýja sjálfur.

Áður hafði Héraðsdómur Norðurlands Eystra dæmt manninn í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Honum var einnig gert að greiða 220 þúsund krónur í sekt, 633 þúsund krónur í bætur til konunnar og tvö þriðju af 1.860 þúsund króna málsvarnarlaun verjanda síns og fleiri gjöld. Þar að auki var hann sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði.

Samkvæmt Hæstarétti skal sá dómur vera óraskaður að mestu, en fangelsisrefsing mannsins lengd í tíu mánuði og þar af sjö mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára.

Dóm hæstaréttar má sjá hér, sem og dóm Héraðsdóms Norðurlands Eystra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira