Innlent

Loðnan verði rannsökuð frekar

Svavar Hávarðsson skrifar
Á síðustu vertíð veiddi íslenski flotinn um fjórfalt meira en ráðgjöf Hafró hljóðar upp á fyrir komandi vertíð.
Á síðustu vertíð veiddi íslenski flotinn um fjórfalt meira en ráðgjöf Hafró hljóðar upp á fyrir komandi vertíð. Vísir/Óskar

Í ljósi árvissrar óvissu um ástand loðnustofnsins og útlit fyrir lélega vertíð með tilheyrandi tekjuhruni fyrir sjávarbyggðir og hið opinbera, er sett stórt spurningarmerki við að hafrannsóknaskipin liggja bundin við bryggju. Verðmæti hverra 100 þúsund tonna af loðnu eru metin á um 12 milljarða króna.

Þetta gerir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, að umtalsefni á heimasíðu fyrirtækisins. Þar bendir Gunnþór á þá staðreynd að loðnan drepst að hrygningu lokinni og því gríðarlega mikilvægt, sé horft til fjárhagslegra hagsmuna útgerðar og samfélagsins alls, að nýting stofnsins sé grundvölluð á bestu fáanlegu rannsóknargögnum sem völ er á. Á þetta við um loðnustofninn sjálfan, afrán sístækkandi hvalastofna og áhrif á aðra nytjastofna.

Löngu er ljóst, segir Gunnþór, að loðnan er ólíkindatól og erfitt að ná utan um stofninn í mælingum.

„Þannig hafa komið ár þar sem búið er að leita og leita að loðnu án mikils árangurs en síðan hefur hún skyndilega birst í miklu magni einhvers staðar við landið án þess að menn hafi áttað sig á hvernig hún hafi gengið. Það er því grundvallaratriði að leggja áherslu á að rannsaka loðnuna sem best því það eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækin, loðnu­bæina, starfsfólk og ríkissjóð,“ skrifar Gunnþór en minnir á gott samstarf Hafrannsóknastofnunar og útgerðanna um rannsóknir og spyr hvort ekki megi útfæra það samstarf frekar og nýta tækjabúnað fiskiskipanna til upplýsingaöflunar. Slíkt samstarf þyrfti jafnframt ekki að vera bundið við stofnmælingar á loðnu.

Gunnþór Ingvason

Í þessu samhengi reifar Gunnþór hagsmunina sem eru undir. Áætluð vinnsluverðmæti úr 100 þúsund tonnum af loðnu eru 11,6 milljarðar króna. Þrettán fyrirtæki í tíu sveitarfélögum koma að veiðum og vinnslu loðnunnar. Launagreiðslur í tengslum við veiðar og vinnslu á 100 þúsund tonnum af loðnu áætlar Gunnþór að nemi um 2,8 milljörðum króna. Á sautján skipum sem koma að veiðunum má reikna með að séu 260 sjómenn í það minnsta og hafa þeir lifibrauð sitt af veiðunum.

„Í landi má reikna með að starfi um 600 manns við loðnuvinnsluna. Hafa tekjur á loðnuvertíð jafnan vegið þungt í árstekjum sjómanna á loðnuskipunum og starfsmanna þeirra fyrirtækja sem annast vinnsluna. Áætla má að skatttekjur ríkisins af 100 þúsund tonnum af loðnu nemi tæplega 2,8 milljörðum króna.“

Gunnþór segir í viðtali við Fréttablaðið að útreikningar sínir séu varleg áætlun. Hann bendir á að nokkur sveitarfélög, sem mest eiga undir veiðum og vinnslu, séu að tapa stórri hlutdeild af sinni veltu sem kemur niður á fjárhagsstöðu heimilanna, jafnt sem verslun og þjónustu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira