Erlent

Repúblikanar gerðu grín að Trump í fjarveru hans

Atli Ísleifsson skrifar
Ted Cruz heilsar Chris Christie. Ben Carson er hér til hægri.
Ted Cruz heilsar Chris Christie. Ben Carson er hér til hægri. Vísir/AFP
Mótframbjóðendur Donalds Trump, sem eins og hann vilja verða forsetaframbjóðendur Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, gerðu grín að auðkýfingnum umdeilda í sjónvarpskappræðum á Fox fréttastöðinni í nótt.

Trump mætti ekki í þáttinn en hann hafði krafist þess að spyrillinn Megyn Kelly yrði ekki í þættinum, en hann hefur gagnrýnt hana harðlega undanfarin misseri.

Ekki var orðið við því og því ákvað Trump, sem mælist með mest fylgi í baráttunni, að sleppa því að mæta.

Hann er þekktur fyrir að móðga meðframbjóðendur sína á sviði og því brugðu nokkrir þeirra á það ráð í nótt að móðga aðra frambjóðendur í gríni, með vísun í Trump og fjarveru hans.

Trump og stuðningsmenn hans stóðu fyrir kosningafundi í Des Moines í Iowa, skammt frá staðnum þar sem kappræðurnar fóru fram, til heiðurs uppgjafarhermönnum.

Forvöl stóru flokkanna tveggja hefjast á mánudaginn þegar kjósendur í Iowa ganga að kjörborðinu.

Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Texas sem mælist með næstmest fylgi á meðal frambjóðendanna, byrjaði á því að hæðast í gríni að þeim sem stóðu á sviðinu. „Ég er vitfirringur og allir á þessu sviði eru vitlausir, feitir og ljótir og Ben [Carson], þú ert ömurlegur skurðlæknir,“ sagði Cruz.

Jeb Bush gerði sömuleiðis grín að Trump og sagðist sakna hans.

Í frétt BBC kemur fram að Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður Flórída, hafi heitið því að loka öllum þeim moskum í landinu sem ýta undir öfgastefnu. Sömuleiðis hét hann því að ógilda kjarnorkusamninginn við Írani á fyrsta degi sínum í stóri forseta, verði hann kjörinn.

Baulað var á Cruz þegar hann sakaði spyrla Fox-stöðvarinnar um að hvetja til árása á hann.


Tengdar fréttir

Trump og Fox í hár saman

Fox fréttastöðin bandaríska og auðkýfingurinn Donald Trump eru komin í hár saman eftir að Trump lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að mæta í kappræðuþátt á stöðinni með öðrum frambjóðendum repúblikana sem sækjast eftir útnefningu flokksins í komandi forsetakosningum.

Dró Palin sundur og saman í háði

Tina Fey sneri aftur í Saturday Night Live í gærkvöldi þar sem hún brá sér í líki fyrrverandi varaforsetaframbjóðandans Söruh Palin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×