Erlent

Repúblikanar gerðu grín að Trump í fjarveru hans

Atli Ísleifsson skrifar
Ted Cruz heilsar Chris Christie. Ben Carson er hér til hægri.
Ted Cruz heilsar Chris Christie. Ben Carson er hér til hægri. Vísir/AFP

Mótframbjóðendur Donalds Trump, sem eins og hann vilja verða forsetaframbjóðendur Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, gerðu grín að auðkýfingnum umdeilda í sjónvarpskappræðum á Fox fréttastöðinni í nótt.

Trump mætti ekki í þáttinn en hann hafði krafist þess að spyrillinn Megyn Kelly yrði ekki í þættinum, en hann hefur gagnrýnt hana harðlega undanfarin misseri.

Ekki var orðið við því og því ákvað Trump, sem mælist með mest fylgi í baráttunni, að sleppa því að mæta.

Hann er þekktur fyrir að móðga meðframbjóðendur sína á sviði og því brugðu nokkrir þeirra á það ráð í nótt að móðga aðra frambjóðendur í gríni, með vísun í Trump og fjarveru hans.

Trump og stuðningsmenn hans stóðu fyrir kosningafundi í Des Moines í Iowa, skammt frá staðnum þar sem kappræðurnar fóru fram, til heiðurs uppgjafarhermönnum.

Forvöl stóru flokkanna tveggja hefjast á mánudaginn þegar kjósendur í Iowa ganga að kjörborðinu.

Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Texas sem mælist með næstmest fylgi á meðal frambjóðendanna, byrjaði á því að hæðast í gríni að þeim sem stóðu á sviðinu. „Ég er vitfirringur og allir á þessu sviði eru vitlausir, feitir og ljótir og Ben [Carson], þú ert ömurlegur skurðlæknir,“ sagði Cruz.

Jeb Bush gerði sömuleiðis grín að Trump og sagðist sakna hans.

Í frétt BBC kemur fram að Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður Flórída, hafi heitið því að loka öllum þeim moskum í landinu sem ýta undir öfgastefnu. Sömuleiðis hét hann því að ógilda kjarnorkusamninginn við Írani á fyrsta degi sínum í stóri forseta, verði hann kjörinn.

Baulað var á Cruz þegar hann sakaði spyrla Fox-stöðvarinnar um að hvetja til árása á hann.


Tengdar fréttir

Trump og Fox í hár saman

Fox fréttastöðin bandaríska og auðkýfingurinn Donald Trump eru komin í hár saman eftir að Trump lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að mæta í kappræðuþátt á stöðinni með öðrum frambjóðendum repúblikana sem sækjast eftir útnefningu flokksins í komandi forsetakosningum.

Dró Palin sundur og saman í háði

Tina Fey sneri aftur í Saturday Night Live í gærkvöldi þar sem hún brá sér í líki fyrrverandi varaforsetaframbjóðandans Söruh Palin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira