Innlent

Reykjavíkurborg: Trúfélögum ekki skylt að greina frá fjármögnun tilbeiðsluhúsa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Borgarstjóri telur að trúfélög ættu að gera grein fyrir fjármögnun tilbeiðsluhúsa til að stuðla að opnari og upplýstari umræðu.
Borgarstjóri telur að trúfélög ættu að gera grein fyrir fjármögnun tilbeiðsluhúsa til að stuðla að opnari og upplýstari umræðu. Vísir/GVA
Það er mat Reykjavíkurborgar að ekki hvíli lagaleg skylda á trúfélögum að upplýsa um hvernig er staðið að fjármögnun kirkjubygginga eða tilbeiðsluhúsa.

Þetta kemur fram í svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem óskað var eftir greinargerð um hvernig bygging fyrirhugaðar mosku í Reykjavík verði fjármögnuð.

Sjá einnig: Sádí-Arabía leggur fram 135 milljónir í byggingu mosku

Mikill styr hefur staðið um fjármögnun fyrirhugaðar mosku en á síðasta ári var greint frá því að Sádí-Arabía hyggðist leggja til 135 milljónir íslenskra króna til byggingar hennar. Sagði borgarstjóri við það tilefni að hann hefði óskað eftir því við mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar að aflað verði upplýsinga um þessar fréttir.

Í minnissblaði mannréttindaskrifstofu vegna málefnis mosku sem fréttastofa hefur undir höndum kemur fram að ekki sé mögulegt að setja það skilyrði að trúfélög geri grein fyrir fjármögnum tilbeiðsluhúsa áður en að borgin úthluti lóð undir slík hús.

Vinningstillagan í samkeppni um hönnun moskunnar sem til stendur að reisa í Reykjavík.Mynd/Atli Bergmann
Sjá einnig: Ekki þarf leyfi stjórnvalda vegna milljóna frá Sádí-Arabíu

Þann 27. apríl 2011 var lögð fram og samþykkt í skipulagsráði tillaga um trúfélag skuli fyrir úthlutun lóðar upplýsa um fjármögnun framkvæmda.

Í minnisblaðinu kemur hinsvegar fram að það sé álit borgarlögmanns að afar hæpið sé að að binda lóðaúthlutanir slíkum skilyrðum enda sé það þekkt að tilbeiðsluhús og kirkjubygginar séu að miklu leyti fjármagnaðar með framlögum og styrkjum, t.d. úr Kirkjubyggingarsjóði. Með vísan til til hinnar almennu jafnræðisreglu sé ekki hægt að setja slík skilyrði gagnvart öðrum trúfélögum

Sjá einnig: Bygging nýrrar mosku samþykkt: „Ekki borgað af neinum öfgamönnum“

Í svari borgarstjóra kemur því fram að með vísan til jafnréttissjónarmiða, minnisblaði mannréttindastjóra dags og umsögn borgarlögmanns verði ekki séð að lagaskylda hvíli á trúfélögum að upplýsa um hvernig staðið er að fjármögnun kirkjubygginga eða tilbeiðsluhúsa.

Telur þó borgarstjóri að borgarráð eigi að vekja athygli löggjafans á þessari staðreynd og beina þeim tilmælum til allra trúfélaga að gera grein fyrir fjármögnun slíkrar uppbyggingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×