Menning

Norðmenn segja Ingólf úr Hrífudal

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ingólfur Arnarson, sem sagður er fyrsti landnámsmaður Íslands, kom frá Dalsfirði á Fjölum, samkvæmt frásögn Landnámabókar. Fjallað er um Ingólf og Hjörleif í fjórða þætti Landnemanna á Stöð 2 í kvöld, mánudagskvöld, klukkan 20.35. Þar verða æskuslóðir fóstbræðranna í Noregi heimsóttar. Hér að ofan má sjá brot úr þættinum.

Dalsfjörður er norðan við Sognfjörð, miðja vegu milli Björgvinjar og Álasunds. Þótt ekki séu til ritaðar heimildir um á hvaða bæ Ingólfur bjó hefur skapast sú hefð að telja hann vera frá Rivedal, eða Hrífudal, og þar var reist stytta af honum.

„Það hefur alltaf verið sagt að Ingólfur Arnarson hafi komið héðan frá Hrífudal,“ segir Synnöve Rivedal, bóndi í Hrífudal, en hún tók við búskap af föður sínum, Arne Rivedal. Rætt er við þau feðginin við bautasteininn sem heimamenn segja að hafi verið reistur þegar Ingólfur sigldi brott.

Ingólfur Arnarson horfir út Dalsfjörð í átt til Íslands.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Raktar eru ástæður þess að þeir Ingólfur og Hjörleifur hröktust úr Noregi, landnámsleiðangri þeirra lýst til Íslands og spurt hversvegna Ingólfur valdi Reykjavík en ekki Suðurland, eftir að hafa kannað sunnanvert landið. 

Þá er velt upp þeirri spurningu hvort þeir Ingólfur og Hjörleifur hafi í raun verið til eða hvort sagan um þá sé tilbúningur.

Svona sér norski listamaðurinn Anders Kvåle Rue fyrir sér að Ingólfur Arnarson hafi komið að öndvegissúlum sínum í Reykjavík árið 874.Teikning/Anders Kvåle Rue

Tengdar fréttir

Á Náttfari að teljast fyrsti landneminn?

Ingólfur Arnarson, sá er nam land í Reykjavík, er í sögubókunum talinn fyrsti landnámsmaður Íslands. Þingeyingar hafa hins vegar löngum haldið því fram að Náttfari hafi verið fyrstur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×