Innlent

Yfirmatsmaður í máli Annþórs og Barkar: Lík fær ekki mar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Annþór (annar frá hægri) og Börkur (annar frá vinstri) yfirgefa Héraðsdóm Suðurlands.
Annþór (annar frá hægri) og Börkur (annar frá vinstri) yfirgefa Héraðsdóm Suðurlands. Vísir

Yfirmatsmaður annars vegar og réttarmeinafræðingur og undirmatsmaður hins vegar eru ekki sammála um hvernig þeir áverkar sem drógu Sigurð Hólm Sigurðsson til dauða eru tilkomnir.

„Það getur gerst en það er mjög ósennilegt þegar maður sér líka að það eru engin meiðsli á búk, eða vöðvum eða fituvef þarna í kring,“ sagði Sidsel Rogdeprofessor í réttarmeinafræði við Háskólann í Ósló, í Héraðsdómi Suðurlands í dag þar sem aðalmeðferð fer fram í máli ríkissaksóknara gegn Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni sem sakaðir eru um árás sem leiddi til dauða Sigurðar Hólm Gunnarssonar.

Sidsel er yfirmatsmaður í málinu en Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari spurði hvort hún drægi þessa ályktun á grundvelli þess að ytri áverka vanti? „Já. Þegar ég sé þessi meiðsl á milta sé ég yfirleitt líka meiðsl á öðrum líffærum og ytri áverka líka.“

Helgi Magnús vildi fá að vita hvort hún hefði einhvern tíma krufið mann sem hefur dáið af blæðingu úr milta? „Ég hef framkvæmt þúsund skoðanir en ekki upplifað að hafa séð þannig skaða á milta sem er ekki sýkt eins og í þessu tilfelli.“

Vitnaði hún til þess að engum öðrum meiðslum sé lýst í skýrslu réttarmeinafræðingsins en á miltanu sjálfu.

Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, vildi vita hvort hún teldi Sigurð Hólm hefði getað hafa látist af völdum lyfjaneyslu ofan í slæmt heilsufar. Sagði hún að eiturefnaskýrslur hefðu sýnt fram á að hann hafi ekki dáið úr eitrun.

Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs Karlssonar,  vildi fá að vita hvort hún útilokaði að þessir áverkar hefðu getað komið til við fall.

„Það fer eftir því hvernig það var umhorfs í herberginu, hvort það hafi verið einhver hlutur til að detta á. Ég segi enn og aftur, ef þessi skaði er tilkominn sem skaði eða áður en hann dó þá hefði það átt að sjást utan á honum,“ sagði hún.

En passar þetta við endurlífgunartilraun? „Já.“ Og þessir tveir lítrar í kviðarholi, þú metur að það passi við hjartahnoð í 45-50 mínútur, spurði Hólmgeir. „Já mér finnst það mest líklegt.“

Bæði dómari og saksóknari vildu þá fá að vita hvort að lífgunartilraunir sem leiddu af sér þessa áverka myndu ekki skilja eftir sig ytri áverka, alveg eins og ef um högg hefði verið að ræða. Það vildi hún ekki meina og sagði að lík fengi ekki mar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira