Viðskipti innlent

Hreiðar Már kærði Halldór Bjarkar til FME fyrir innherjasvik

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fjármálaeftirlitið hefur til athugunar meint innherjasvik Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar eins framkvæmdastjóra Arion banka vegna hlutabréfa sem hann seldi í Kaupþingi rétt fyrir bankahrunið.

Halldór Bjarkar var framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka en tilkynnt var um starfslok hans í gær.

Hann seldi hlutabréf sín í Kaupþingi 3. október 2008 en við skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara 20. maí 2009 gaf hann þessar skýringar á sölu bréfanna:

„... sérstaklega þegar ég var búinn að sjá þetta bull allt saman að þá missti ég algjörlega trú á bankanum og þá ákvað ég að selja öll mín hlutabréf og allt sem ég á í bankanum. (...) þegar menn eru komnir í svona snúninga að þá hérna, þá einhvern veginn er trúin farin á að við séum að gera réttu hlutina og þá tek ég ákvörðun eins og ég segi um að selja mín hlutabréf og ég var orðinn nokkuð viss á þessum tímapunkti að þetta væri allt að fara til fjandans.“

Í afriti af símtali milli Halldórs og Sölva Sölvasonar lögfræðings hjá Kaupþingi í Lúxemborg hinn 2. október 2008, daginn áður en hann selur hlutabréfin, kemur fram þetta sama orðalag að allt sé að „fara til fjandans.“

Bullið og snúningarnir sem Halldór var að vísa til í skýrslutökunni voru Al-Thani viðskiptin en um var að ræða skýrslutöku vegna rannsóknar þess máls. Þessar skýringar hans eru á skjön við það sem hann sagði í yfirlýsingu í desember sl. en þá sagði hann eftirfarandi:

„Hvað varðar sölu mína á bréfum í Kaupþingi nokkrum dögum eftir þjóðnýtingu Glitnis, þá byggði sú sala einungis á þeirri forsendu að við þjóðnýtingu Glitnis væri um gjörbreytt landslag að ræða á íslenskum fjármálamarkaði.“

Það var Hörður Felix Harðarson lögmaður og verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar fyrrverandi forstjóra Kaupþings sem kærði Halldór til FME 12. janúar. Í kærunni er rakið að Halldór var tvísaga um ástæðu sölu bréfanna. FME er nú með málið til athugunar á grunni þess hvort Halldór hafi selt bréfin vegna upplýsinga sem hann bjó yfir um Al-Thani viðskiptin, sem hann taldi snúninga og bull, og stöðu Kaupþings á þeim tíma, sem gætu þá fallið undir innherjahugtakið.

Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka var kæran til FME ekki ástæða starfsloka Halldórs hjá Arion banka, sem tilkynnt var um í gær, enda vissu stjórnendur bankans ekki af henni. 

Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka.

Ítekað setið undir dylgjum frá Hreiðari Má
Halldór vísar því alfarið á bug að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann seldi bréf sín.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hreiðar Már sendir bréf til FME vegna þessa sama máls. Hann gerði það fyrir nokkrum árum og þá tók FME málið til rannsóknar og hreinsaði mig af öllum ásökunum. Þetta var árið 2013 og ég veit það fyrir víst að þá hafði FME öll þessi sömu gögn og þú ert að vísa til undir höndum, allar mínar skýrslutökur hjá sérstökum saksóknara. Þannig að það er ekkert nýtt í þessu sem FME hefur ekki þegar skoðað. Allar mínar yfirlýsingar og ákvarðanir á fyrstu vikum októbermánaðar 2008 verður að skoða í ljósi þess ástands sem var í þjóðfélaginu þessa viku rétt eftir þjóðnýtingu Glitnis. Ég hef ítrekað þurft að sitja undir dylgjum frá Hreiðari Má. Hann sagði að ég hefði selt bréf í Exista sem var ekki satt. Hann sagði að ég hefði gert samkomulag við sérstakan saksóknara sem sérstaki hefur ítrekað borið til baka og hann hefur ítrekað haldið á lofti þessum ásökunum um innherjasvik vegna sölu á hlutabréfum í Kaupþingi þrátt fyrir að FME hafi hreinsað mig af þeim ásökunum. Nú held ég að þessum dylgjum sé lokið,“ segir Halldór.

Halldór var lykilvitni ákæruvaldsins í svokölluðu Al-Thani málinu en í því máli hlutu fyrrverandi samstarfsmenn hans hjá Kaupþingi þunga fangelsisdóma. Hann var líka vitni ákæruvaldsins í svokölluðu CLN-máli, stundum nefnt Chesterfield-málið en í því máli voru þrír fyrrverandi stjórnenda Kaupþings sýknaðir fyrir umboðssvik í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sú staðreynd að Halldór var ekki metinn trúverðugur sem vitni skipti miklu máli fyrir sýknu í málinu enda segir í dóminum: „Vitnið H hefur ekki verið stöðugt í skýrslum sínum í málinu og þegar það og allt framangreint er metið telur dómurinn að ekki sé óhætt gegn eindreginni neitun ákærða X að telja sannað að hann hafi gefið starfsmönnum Kaupþing banka hf. fyrirmæli…“ en X er Hreiðar Már Sigurðsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
HAGA
1,22
8
242.526
ICEAIR
0,66
11
85.648
MARL
0,29
12
438.347
ORIGO
0
1
497
TM
0
1
1.000

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
REGINN
-1,52
8
78.711
EIK
-1,42
5
129.885
REITIR
-1,11
8
236.805
SIMINN
-0,95
10
162.353
N1
-0,82
5
133.850