Erlent

Einn strokufanganna gaf sig fram til lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Strokufangarnir þrír.
Strokufangarnir þrír. Mynd/Fógeti Orange County
Lögreglan í Orange County í Bandaríkjunum hefur handtekið einn strokufanganna sem struku úr fangelsi fyrir viku síðan. Bac Tien Duong er sagður hafa gefið sig að máli við mann á götu úti í dag og beðið hann um að hafa samband við lögregluna.

Enn ganga tveir aðrir sem struku með honum lausir. Þeir Hossein Nayeri og Jonathan TieuNayeri hefur verið líkt við skáldsagnapersónuna og raðmorðingjann Hannibal Lecter. Þó var saksóknarinn sem setti þá líkingu fram gagnrýndur fyrir það af yfirmönnum sínum. Allir voru þeir dæmdir fyrir alvarleg ofbeldisbrot.

Sjá einnig: Flótta­fangarnir í Kali­forníu: „Hannibal Lecter gengur laus“

Fangarnir söguðu í sundur 1,3 sentímetra þykka járnrimla og sömuleiðis pípulagnir til að komast út úr fangelsinu. Samkvæmt fangelsisyfirvöldum í Orange County komust mennirnir upp á þak fangelsisins þar sem ekki er reglubundið eftirlit. Þaðan létu þeir sig síga niður, utan fangelsismúranna, með einhverskonar heimatilbúnu reipi.

Það tók fangaverði um 16 klukkutíma að uppgötva að þeir væru flúnir vegna óreiða í fangelsinu. Einn fangavörður var stunginn og tafðist talning fanganna.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er talið að Nayeri hafi skipulagt flóttann og að hann hafi fengið hjálp frá enskukennara sínum. Rannsakendur telja að þau hafi átt í ástarsambandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×