Handbolti

Norðmenn lögðu fram kæru eftir tapið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Norðmenn voru niðurlútir eftir tapið í kvöld.
Norðmenn voru niðurlútir eftir tapið í kvöld. Vísir/AFP

Norska handknattleikssambandið hefur lagt fram kæru til Handknattleikssambands Evrópu, EHF, vegna lokamínútu leiksins gegn Þýskalandi í undanúrslitum EM í Póllandi í kvöld.

Samkvæmt norskum fjölmiðlum voru Þjóðverjar, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, með of marga leikmenn inn á í lokasókn sinni í leiknum en þá tryggði Kai Häfner liðinu sigur á dramatískan hátt.

Sjá einnig: Dagur með Þýskaland í úrslitin á EM

Dagur setti aukamann í vesti inn á í þýsku sóknina en svo virðist sem að markvörður þýska liðsins hafi ekki farið út af, eins og reglur kveða á um. Dómarar leiksins dæmdu hins vegar ekkert og engar athugasemdir komu frá ritaraborðinu.

„Við höfum lagt fram formleg mótmæli og nú er boltinn hjá EHF. Við höfum gert það sem við getum,“ sagði Heidi Tjugum sem er í forsvari fyrir norska landsliðið á mótinu.

Sjá einnig: Dagur: Ég vissi að leikurinn yrði framlengdur

Þá er einnig gerð athugasemd við það að leikmenn Þýskalands hafi hlaupið inn á völlinn til að fagna þó svo að leikklukkan hafi sýnt að enn væru þrjár sekúndur eftir af leiknum.

Kristian Kjelling, fyrrum landsliðsmaður og sérfræðingur, telur þó ekki líkur á því að Norðmenn fáu sínu framgengt og að úrslitin verði látin standa.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira