Handbolti

Aron: Höfum náð að greina vel leik okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Vísir/Getty

Það var gott hljóð í Aroni Kristjánssyni, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta, eftir þriggja marka sigur á Þjóðverjum í Hannover í dag.

Íslenska liðið tapaði með tveimur mörkum eftir ágætan leik í gær en vann sannfærandi sigur í seinni leiknum í dag.

„Það er búin að vera góð vinna í gangi og menn einbeittir. Við höfum náð að greina vel leik okkar og vinna með þessi smáatriði sem þarf að vinna með. Það hefur bætt vinnu okkar smátt og smátt," sagði Aron Kristjánsson en var fljótur að bæta við:

„Það eru samt ennþá hlutir sem við þurfum að laga og ná að klára áður en mótið byrjar," sagði Aron.

Það var allt annað að sjá til íslenska liðsins en á miðvikudaginn var þegar liðið tapaði á móti Portúgal í Kaplakrika.

„Það voru nokkur atriði sem spiluðu inn þar. Við eigum náttúrulega alltaf að vinna Portúgal á heimavelli en það var sterkt að vinna þá daginn eftir þrátt fyrir að hafa gert einhverjar átta til níu breytingar. Það var mjög gott upp á framhaldið," sagði Aron.

„Nú erum við til viðbótar búnir að fá tvo leiki í Þýskalandi og það hefur verið góður stígandi í okkar leik," sagði Aron.

„Það sem var gott við þennan seinni leik var að við vorum að spila lengur inn í leikkerfunum, vorum að ná fleiri sendingum, að ná að halda pressunni betur og fá betri færi. Það gekk betur í dag," sagði Aron.

„Varnarleikurinn í fyrri hálfleik var mjög sterkur þegar við náðum að spila sex á móti sex. Við vorum aðallega í vandræðum með seinni bylgjuna þeirra. Þegar við vorum með margar mismundandi uppstillingar i seinni hálfleiknum þá fór aðeins að losna um þetta. Þeir fóru þá að skora meira á okkar uppstilltu vörn," sagði Aron en það verður viðtal við hann í Fréttablaðinu á morgun.

Aron á enn eftir að skera hópinn niður um einn mann en það kemur ekki í ljós fyrr en á morgun eða þriðjudaginn hver dettur út.


Tengdar fréttir

Aron: Sást að við erum á réttri leið með þetta lið

Landsliðsþjálfarinn var sáttur með ýmislegt í leik íslenska liðsins þrátt fyrir eins marks tap gegn Þýskalandi í æfingarleik í dag en hann segir að hann sé ánægður með framfarirnar frá óvæntu tapi gegn Portúgal á dögunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira