Körfubolti

Grindavík sló út stjörnumprýtt lið Hauka

Anton Ingi Leifsson skrifar
Petrúnella og liðsfélagar hennar í Grindavík eru komnar í undanúrslit eftir óvæntan sigur á Haukum.
Petrúnella og liðsfélagar hennar í Grindavík eru komnar í undanúrslit eftir óvæntan sigur á Haukum. vísir/þórdís

Grindavík, Snæfell og Stjarnan tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum Powerade-bikarsins, en í gær tryggði Keflavík sér sæti í undanúrslitunum með sigri á Skallagrím. Þessi lið munu því leika í undanúrslitum keppninnar sem fara fram síðar í þessum mánuði.

Grindavík byrjaði betur og var 18-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann, en Haukar komu sterkar inn í annan leikhluta og þær rauðklæddu voru 39-33 yfir í hálfleik.

Grindavík vann þriðja leikhlutann 18-13 og spennan því rosaleg fyrir síðasta leikhlutann. Whitney Mitchelle Frazier kom Grindavík í 65-63 með tveimur vítaskotum og Haukarnir héldu í síðustu sóknina.

Pálína Gunnlaugsdóttir tók þriggja stiga skot sem geigaði nokkrum sekúndum fyrir leikslok, en Haukarnir hirtu frákastið og nýjasti leikmaður Hauka, Chelsie Alexa Schweers, tók síðasta skotið sem geigaði. Lokatölur mjög óvæntur tveggja stiga sigur Grindavíkur, 65-63, sem er komið í undanúrslit.

Helena Sverrisdóttir skoraði 25 stig fyrir Hauka, tók fjórtán fráköst og gaf eina stoðsendingu. Scweers skoraði fjórtán stig í sínum fyrsta leik síðan hún kom frá Stjörnunni.

Hjá Grindavík var Mitchelle Frazier stigahæst með 27 stig og tók sex fráköst. Hún gaf einnig tvær stoðsendingar og stal fimm boltum. Næst komu þær Petrúnella Skúladóttir og Sigrún Sjöfn Ámundardóttir með tólf stig.

Stjarnan vann auðveldan sigur á Hamri, 67-41, en staðan í hálfleik var 29-28. Í síðari hálfleik spýttu heimastúlkur í Ásgarði í lófana og unnu þriðja leikhlutann 20-7 og þann síðasta 18-6.

Margrét Kara Sturludóttir var frábær, en hún skoraði fimmtán stig, tók sextán fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Íris Ásgeirsdóttir var stigahæst með níu stig hjá Hamri.

Snæfell vann svo tuttugu stiga sigur á Val í Valshöllinni, 78-58. Staðan í hálfleik var 30-40, Snæfell í vil og eftirleikurinn var auðveldur fyrir ríkjandi Íslandsmeistara.

Karisma Chapman skoraði nítján stig, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar fyrir Val, en hjá Snæfell var það Haiden Denise Palmer sem var atkvæðamest með 20 stig. Að auki tók hún níu fráköst og gaf sjö stoðsendingar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira