Innlent

Útilokar ekki að börn byrji fimm ára í grunnskóla

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Menntamálaráðherra útilokar ekki að breyta skólaskyldunni þannig að börn hefji grunnskólanám fimm ára. Hann telur mikilvægt að skoða málið frá öllum hliðum áður en slík ákvörðun yrði tekin.

Samtök atvinnulífsins lögðu á dögunum til að skólaganga barna hæfist við fimm ára aldur í stað sex ára líkt og er í dag. Börnin myndu þá ljúka grunnskólanámi 15 ára í stað 16 ára. Samtök atvinnulífsins telja slíkt þjóðhagslega hagkvæmt.

„Þetta er mál sem að hefur verið til skoðunar og ég vek athygli til dæmis á þessu verkefni sem eru uppi í Krikaskóla. Þar sem er verið að setja saman í eina skólastofnun leikskólastigið og fyrstu fjóra bekkina í grunnskóla. Við fáum svona lokamat á það verkefni innan skamms og ég held að það verði áhugavert fyrir okkur að skoða það. Hvort að það einmitt gefi tilefni til einhverra breytinga. Ég legg áherslu á það að menn verða að horfa á þetta heildstætt. Tengja þetta saman við menntun kennaranna, undirbúning þeirra, kennsluaðferðir og svo framvegis,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. 

Forseti menntavísindasviðs Háskóla Íslands hefur bent á það að fimm ára börn læri betur í gegnum leik heldur en með formlegum kennsluaðferðum. Illugi segir að slíkt verði að hafa í huga áður en breytingar sem þessar yrðu gerðar. Hann útilokar ekki að skólaskyldunni verði breytt þannig að börn hefji skólagöngu sína við fimm ára aldur. Hafa verði þó marga ólíka þætti í huga ef það verði gert.

„Ég bendi á það og það hefur komið fram í umræðunni um þetta mál að það skiptir máli til dæmis leikurinn. Hvernig börn læra í gegnum leik. Það eru rök í málinu,“ segir Illugi og að hann muni skoða málið mjög vel. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira