Innlent

Fimmtán mál er varða kennitöluflakk send í rannsókn nýlega

Svavar Hávarðsson skrifar
Æ algengara er í stórum framkvæmdum að aðalverktaki kaupi vinnu undirverktaka – allt niður í sjö eða átta slíka. Þeir sem eru neðstir í röðinni hafa ítrekað verið staðnir að því að standa ekki skil á opinberum gjöldum, segir í Tíund. fréttablaðið/gva
Æ algengara er í stórum framkvæmdum að aðalverktaki kaupi vinnu undirverktaka – allt niður í sjö eða átta slíka. Þeir sem eru neðstir í röðinni hafa ítrekað verið staðnir að því að standa ekki skil á opinberum gjöldum, segir í Tíund. fréttablaðið/gva

Hert löggjöf til að sporna við landlægu kennitöluflakki mun ekki leggja stein í götu þeirra sem ætla sér að stunda heiðarlegan atvinnurekstur. Breytingar á löggjöf eru aðkallandi til að uppræta vandann sem tekið hefur verið á í nágrannalöndum.
Þetta er álit Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattsstjóra.

Í leiðara hans og Ingvars J. Rögnvaldssonar vararíkisskattstjóra í desemberhefti Tíundar, tímarits embættisins, er fjallað um blóðtökuna sem samfélagið verður fyrir árlega vegna þeirrar meinsemdar sem skattaundanskot eru, en spunnist hefur umræða um kennitöluflakk og skattaundanskot almennt í kjölfar skrifa þeirra. Þar segir að starfshópur á vegum embættisins telji að möguleg undanskot séu rösklega 80 milljarðar, miðað við þau umsvif sem eru í þjóðfélaginu – og er þá vísað til þeirra undanskota sem beinlínis eru refsiverð samkvæmt lögum.

Skúli Eggert Þórðarson

„Ég held að kennitöluflakkið sé að mælast í milljörðum, ekki tugum milljarða. Meginhluti skattaundanskota hérlendis, eru vantaldar tekjur,“ segir Skúli Eggert.

„Kenni­töluflakkið snýst fyrst og síðast um að skildar eru eftir skuldir, einkum við opinbera aðila; það getur verið refsivert eins og þegar ekki er staðið skil á innheimtri staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Einnig eru stundum skildar eftir almennar skuldir og það er ekki talið inni í þessum tölum heldur aðeins þegar um refsiverða háttsemi er að ræða."

„Almennar skuldir eru ekki undanskot í þeim skilningi. Það er almennt ekki refsivert í sjálfu sér nema talin séu kerfisbundin svik og þá væntanlega ígildi fjársvika. Svo má velta fyrir sér siðgæðinu á bak við það. Þessi mál eru mjög ólík og ekki má gleyma því að stundum geta tilfallandi atvik orðið til þess að atvinnurekstri er hætt. Mál versna þegar nýtt félag er stofnað um reksturinn og öllu er haldið óbreyttu, sami atvinnurekstur, sama starfsfólk og jafnvel sama nafn,“ segir Skúli Eggert.

Hann bætir við að embættið hafi að undanförnu sent frá sér í framhaldsmeðferð mál fimmtán aðila vegna kennitöluflakks fyrir upp undir tvo milljarða króna. Þar getur komið til kasta skattrannsóknarstjóra og síðar lögreglu ef sakir eru taldar miklar, eða lögð verður á stjórnvaldssekt.

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um kennitöluflakk eftir birtingu greinarinnar er Alþýðusamband Íslands. Þar er það fullyrt að stjórnvöld hafi aldrei tekið á vandanum svo heitið geti, þrátt fyrir að vandinn sé áratuga gamall. Þá sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 á dögunum að ný lög um ársreikninga sem komi fram á vorþingi séu nauðsynlegur undanfari þess að kortleggja umfang kennitöluflakks. Hún boðaði hins vegar frumvarp um aðgerðir gegn kennitöluflakki strax í september 2013.

Skúli Eggert vill ekkert tjá sig um einstakar yfirlýsingar í nútíð né fortíð um kennitöluflakk eða skattaundanskot almennt, og vísar til leiðarans.

„Við bendum á þær leiðir sem hafa verið farnar í nágrannalöndum okkar. Það sem við erum að benda á mun ekki hafa nein vandamál í för með sér fyrir þá sem hafa allt sitt á hreinu. Þeir sem standa heiðarlega að sínum rekstri eiga ekki að verða fyrir neinum óþægindum. 

Framhaldið er einfaldlega pólitísk spurning, við bendum á það sem betur má fara, erum þar ekki einir á báti og ég hef enga trú á öðru en að stjórnvöld taki þessar ábendingar alvarlega og finn raunar ekki annað en að svo verði,“ segir Skúli Eggert. 

Í leiðara Tíundar nefna Skúli Eggert og Ingvar lausnir, og þær telja þeir verða að koma í gegnum bættan lagaramma. Þar benda þeir einfaldlega á þær leiðir sem farnar hafa verið á Norðurlöndum.

Í Noregi var árið 1976 tekið upp í hlutafélagalögum sjálfvirkt bann við því að einstaklingur fengi að taka þátt í stofnun og stjórnun í nýju hlutafélagi hafi hann verið í stjórnendastöðu í gjaldþrota félagi árið á undan. Reglur af svipuðu tagi tóku gildi í Danmörku í byrjun árs 2014.
Kennitöluflakk er þegar rekstraraðili skiptir um kennitölu og atvinnurekstrinum er haldið áfram undir nýjum auðkennum en skuldir, einkum við hið opinbera, eru skildar eftir í gamla félaginu. Þetta er gert í skjóli þess að í lögum bera stofnendur félags takmarkaða ábyrgð á rekstri þess.
 l Ríkisskattstjóri telur nauðsynlegt að lagaumgjörð félagaréttar þurfi endurskoðunar við til að takmarka skipulagða misnotkun þessara ákvæða í lögum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira