Erlent

Nýr leiðtogi Katalóna vill sjálfstæði héraðsins innan átján mánaða

Atli Ísleifsson skrifar
Carles Puigdemont veifar til stuðningsmanna sinna.
Carles Puigdemont veifar til stuðningsmanna sinna. Vísir/AFP

Nýr leiðtogi héraðsstjórnar Katalóníu hefur heitið því að halda áfram áætlun forvera síns, Artur Mas, um að Katalónía verði sjálfstætt ríki innan átján mánaða.

Carles Puigdemont lét orðin falla í ræðu sem hann flutti á héraðsþinginu í dag. Hann var í atkvæðagreiðslu kjörinn nýr forseti héraðsins með sjötíu atkvæðum gegn 63.

Mas greindi frá því um helgina að hann myndi láta af forsetaembættinu þar sem hann nyti ekki nægilegs stuðnings innan þingsins.

Í frétt BBC kemur fram að spænski forsætisráðherrann Mariano Rajoy segist áfram ætla að berjast gegn aðskilnaði og fyrir einingu og fullveldi Spánar.  

Enn er allt óljóst um framtíð Rajoy í stóli forsætisráðherra Spánar eftir spænsku þingkosningarnar sem fram fóru í síðasta mánuði. Hann hefur þó hvatt komandi ríkisstjórn til að standa upp í hárinu á þrýstingi aðskilnaðarafla.

Héraðskosningar fóru fram í Katalóníu í september síðastliðinn og hafa stuðningsmenn aðskilaðar, sem unnu mikinn sigur í kosningunum, síðan deilt um hver skuli fara fyrir nýrri stjórn. Puigdemont sagðist þó í dag ætla að binda endi á deilurnar.

Katalónska þingið greiddi í nóvember atkvæði með að hefja aðskilnaðarferli, en ríkisstjórn Spánar telur hins vegar ferlið ekki standast stjórnarskrá.


Tengdar fréttir

Pólitísk kollsteypa eftir þingkosningar á Spáni

Kjósendur á Spáni hafna gömlu valdaflokkunum sem fengu innan við helming atkvæða. Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt útgönguspám. Enginn flokkur náði hreinum meirihluta og ljóst er að stjórnarmyndunarviðræður verða erfiðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira