Sport

Sparkarinn í Minnesota tekur fulla ábyrgð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Walsh horfir á eftir sparkinu í gær.
Walsh horfir á eftir sparkinu í gær. Vísir/Getty

Sparkarar eru ekki vinsælustu leikmennirnir í amerískum fótbolta. Það taka fáir eftir þeim þegar vel gengur en öll augu beinast að þeim þegar þeir gerast sekir um mistök.

Það henti Blair Walsh hjá Minnesota Vikings í gær. Þegar innan við hálf mínúta var eftir gat Walsh í kjörstöðu að tryggja liði sínu sigur á Seattle Seahawks og þar með sæti í undanúrslitum Þjóðardeildarinnar um næstu helgi.

Sjá einnig: Reimarnar út eins og í Ace Ventura og Seattle vann

Walsh brást hins vegar bogalistin í fimbulkuldanum í Minnesota í gær þegar hann sparkaði framhjá af 27 jarda færi. Eins og greint var frá eftir leikinn í gær sneru reimarnar á boltanum út að Walsh þegar hann sparkaði en hann sagði sjálfur að það væri engin afsökun.

„Ég get sagt ykkur þetta. Þetta var mér að kenna. Af þessu færi á ég að geta sparkað vatnsmelónu í gegnum markið,“ sagði Walsh við fréttamenn eftir leikinn.

„Allir aðrir gerðu sitt hárrétt. Ég er sá eini sem brást. Þetta er mér að kenna.“

Mike Zimmer, þjálfari Vikings, sagðist ekki hafa rætt við Walsh þegar hann ræddi við fjölmiðla á blaðamannafundi sínum eftir leik.

„Þetta er af stuttu færi [e. chip shot]. Hann verður að hitta,“ sagði Zimmer. „Við spiluðum nógu vel til að vinna. Það er mikið hjarta og mikil barátta í þessu liði. Ég hef líklega aldrei verið jafn stoltur af liði og þessu.“

Þess ber að geta að Walsh skoraði öll stig Minnesota í leiknum en hann hefur leikið með liðinu síðan hann kom inn í deildina árið 2012.

Síðan þá hefur hann verið í hópi áreiðanlegustu sparkara deildarinnar en hann hafði aðeins einu sinni áður klikkað á 20-29 jarda vallarmarkstilraun á ferlinum - en hitt úr 30.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira