Handbolti

Eistlendingur með íslenska tengingu í Mosfellsbæinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mikk Pinnonen í leik með Árósum.
Mikk Pinnonen í leik með Árósum. vísir/getty

Afturelding gengur frá samningi við nýjan leikmann í dag en Eistlendingurinn Mikk Pinnonen er búinn að samþykkja samning við Olís-deildarliðið.

„Það er allt klárt. Hann á bara eftir að skrifa undir í dag. Ég er einmitt að ná í hann núna út á flugvöll,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, við Vísi í hádeginu.

Pinnonen er lágvaxinn leikstjórnandi, 180 cm á hæð, en sterkur maður á mann, að sögn Einars. Hann var síðast á mála hjá Dormagen í Þýskalandi en spilaði þar áður í Rúmeníu og Svíþjóð.

„Hann var barnastjarna í eistneskum handbolta svona eins langt og það nær. Hann var svo í yngri flokkunum hjá Aarhus og spilaði þar með meistaraflokknum,“ sagði Einar Andri.

„Hann er líka með íslenska tengingu. Hann átti íslenska kærustu og var með nokkrum strákum úr Aftureldingu í námi í Árósum þannig hann þekkir ágætlega til.“

Einar Andri sá Pinnonen fyrst þegar hann var að þjálfa '90-landsliðið fyrir fimm árum síðan en það mætti Eistum með Pinnonen í fararbroddi.

„Hann var alveg hrikalega öflugur þannig við reyndum að fá hann í FH. Svo losnaði hann bara hjá Dormagen í vetur og þannig kom þetta upp hjá okkur. Hann á að vera góður en við verðum bara að sjá hvernig hann aðlagast,“ sagði Einar Andri.

Afturelding, sem komst í úrslitarimmuna á Íslandsmótinu í fyrra, er í fjórða sæti Olís-deildarinnar þegar 18 umferðum er lokið. Einar segir þessi kaup skilaboð um að Mosfellingar ætli sér alla leið í vor.

„Það er klárt mál. Menn eru búnir að finna lyktina af þessu í Mosfellsbænum og ætla sér meira í vetur og á næstu árum. Þetta er viðleitni í að nálgast þrjú efstu liðin. Okkur langar svo sannarlega að vera með,“ sagði Einar Andri Einarsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira