Handbolti

Meiðsli Björns Bergmanns virðast ekki alvarleg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér er verið að huga meiðslum Björns.
Hér er verið að huga meiðslum Björns. Vísir/Getty
Björn Bergmann Sigurðarson var nýkominn af stað með enska B-deildarliðinu Wolverhampton Wolves þegar hann virtist meiðast illa í bikarleik gegn West Ham um helgina.

Björn lagðist skyndilega í grasið eftir að hafa fengið mikinn verk í bakið en enginn leikmaður var þá nálægt honum. Hann var borinn af velli eftir að hafa fengið aðhlynningu í dágóða stund.

„Hann fór í aðgerð á bakinu í sumar sem heppnaðist vel, sem betur fer,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, bróðir hans, í samtali við Vísi í dag.

Sjá einnig: Björn Bergmann borinn af velli

„Hann fann fyrir verki og vildi ekki taka neina áhættu. Því lagðist hann niður,“ sagði Jóhannes Karl enn fremur.

„Eftir leikinn fór hann í myndatöku í London sem komu vel út. Það er enginn sjáanlegur skaði eða neitt slíkt. Hann er búinn að vera í meðhöndlun og þetta lítur allt saman vel út.“

„Wolves á leik á morgun og hann nær honum ekki. En það er stefnt að því að hann geti spilað [gegn Cardiff] um helgina.“

Björn Bergmann spilaði sínar fyrstu mínútur á tímabilinu með Wolves á nýársdag þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Brighton. Hann stóð sig vel í honum og var í byrjunarliðinu gegn West Ham.

Sjá einnig: Fyrsti leikur Björns Bergmanns fyrir Úlfana í tvö ár

Björn Bergmann átti góðan leik þar til hann meiddist og var nálægt því að skora. Meiðslin voru því einkar svekkjandi, ekki síst í ljósi þess að liðið er búið að missa tvo framherja á skömmum tíma.

Sheyi Ojo, sem var í láni frá Liverpool, hefur verið kallaður til baka úr láninu og þá hefur félagið selt Benik Afobe til Bournemouth.

„Mér finnst allar líkur á því að Björn fái tækifæri til að spila og sýna hversu góður hann er,“ sagði Jóhannes Karl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×