Handbolti

Þrjár skyttur meiddar hjá Degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Christian Dissinger í leik með þýska landsliðinu.
Christian Dissinger í leik með þýska landsliðinu. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson hefur kallað á Julius Kühn, leikmann Gummersbach, í þýska landsliðshópinn fyrir EM í handbolta sem hefst á föstudaginn.

Óheppnin virðist elta þýska landsliðið á röndum því að þrjár rétthentar skyttur eru að glíma við meiðsli eftir æfingaleikina gegn Íslandi um helgina. Það eru Steffen Fäth, Christian Dissinger og Niclas Pieczkowski.

„Julius Kühn býður okkur upp á annan möguleika í skyttustöðunni,“ sagði Dagur við þýska fjölmiðla en fyrir mótið missti hann þá Uwe Gensheimer, Patrick Grötzki, Patrick Wiencek, Paul Drux og Muchael Allendorf alla í meiðsli.

Dagur sagði í heimildaþætti sem sýndur var í þýska sjónvarpinu um helgina að það væri mikil breidd í liðinu til að bregðast við meiðslum leikmanna og fær hann nú að sannreyna það.

Sjá einnig: Sjáðu heimildaþáttin um Dag

Þýskaland er í sterkum riðli á EM. Liðið mætir Spáni í fyrsta leik á laugardag og leikur síðar gegn Svíþjóð og Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×