Erlent

Unglingur réðst á kennara með sveðju í nafni ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar hafa vaktað rúmlega 700 samkomustaði gyðinga síðasta árið.
Lögregluþjónar hafa vaktað rúmlega 700 samkomustaði gyðinga síðasta árið. Vísir/AFP
15 ára unglingur af tyrkneskum uppruna réðst á kennara í borginni Marseille í dag með sveðju. Kennarinn er gyðingur og táningurinn sagðist hafa ráðist á hann í nafni Allah og Íslamska ríkisins. Sá sem fyrir árásinni varð særðist á öxli og hendi en lét ekki lífið. Táningurinn var handsamaður af lögreglu.

Franskur saksóknari sagði blaðamönnum frá yfirlýsingu drengsins í dag, en táningurinn sagði lögregluþjónum að hann hefði einnig ætlað sér að ráðast á lögreglumenn.

Árásarmanninum hefur verið lýst sem prúðum dreng og góðum nemenda sem sýndi engin merki þess að hafa orðið fyrir öfgavæðingu.

Frá því í janúar í fyrra, þegar stuðningsmaður ISIS réðst á matvöruverslun gyðinga í París, hafa rúmlega 700 samkomuhús, bænahús, skólar og félagsheimili gyðinga verið undir vernd lögreglu í París. Fjórir létust í árásinni sem gerð var skömmu eftir árásina á Charlie Hebdo.

Mikil spenna ríkir í Frakklandi þessa dagana þar sem 130 manns létu lífið í árásum vígamanna ISIS fyrir tveimur mánuðum. Um helgina var kveikt í tveimur kirkjum í landinu og þá fannst svínshöfuð við mosku sem rasísk ummæli höfðu verið krotuð á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×