Innlent

Ófærð á Suðurlandi

Vonskuveður og vegir lokaðir víða.
Vonskuveður og vegir lokaðir víða. Vísir/Friðrik Þór

Margar helstu aðalleiðir á sunnanverðu landinu lokuðust í gærkvöldi og í nótt vegna snjókomu og skafrennings. Þannig var Hellisheiði og Þrengslum lokað á miðnætti en mokstur er hafinn.

Þá er víða ófærð í þéttbýli eins og Selfossi og Þorlákshöfn og hefur lögregla þurft að aðstoða nokkra ökumenn í nótt á þessu svæði. Sumstaðar er líka þæfingur í hliðargötum á höfuðborgarsvæðinu en búið er að hreinsa aðal umferðaræðar. Víðasthvar hefur dregið úr snjókomu á þessum slóðum og svo á vind heldur að lægja.

Uppfært 8:06:
Nú er búið að opna veginn um Þrengsli en Hellisheiði er enn lokuð. „Búið er að opna Suðurstrandarveg og Mosfellsheiði. Slæm færð er um mestallt Suðurland, þæfingsfærð víða og sums staðar þungfært en mokstur er hafinn.

Vegir eru óðum að verða færir á Vesturlandi, þó er ófært á Fróðárheiði og Útnesvegi á Snæfellsnesi. Éljahraglandi er á Vestfjörðum en vegir vel færir.

Hálkublettir eru á vegum á Norðurlandi vestra, raunar þæfingur á Siglufjarðarvegi en verið að hreinsa. Við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum er hins vegar víða snjókoma, og snjóþekja eða hálka á flestum vegum.

Þæfingsfærð er á Háreksstaðaleið og Fjarðarheiði en verið að hreinsa. Annars er hálka á flestum vegum á Austurlandi, alveg suður í Öræfi,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira