Erlent

Öflug sprenging í Istanbúl

Atli Ísleifsson skrifar
Sprengjuárásin var gerð skammst frá Bláu moskunni.
Sprengjuárásin var gerð skammst frá Bláu moskunni. Vísir/Getty
Talsmaður Istanbul-borgar hefur staðfest að tíu manns hið minnsta hafi fallið og fimmtán særst í sjálfsvígssprengjuárás í Sultanahmet-hverfinu í tyrknesku stórborginni Istanbul í morgun.

Tyrkneskir miðlar segja að á meðal hinna látnu séu þýskir ferðamenn. Norskir miðlar segja einnig að norskur ferðamaður hafi særst í árásinni. Þá hefur einnig komið fram að perúskur ferðamaður hafi særst.

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, hefur boðað ríkisstjórn landsins til neyðarfundar vegna árásarinnar.

Vísir/EPA
Sultanahmet er einn af elstu borgarhlutum Istanbúl og þar er að finna marga af helstu vinsælustu ferðamannastöðum borgarinnar, meðal annars Bláu moskuna og Hagia Sofia eða Ægisif.

Árásin varð nærri egypsku broddsúlunni (e. obelisk) nærri Bláu moskunni klukkan 8:20 að íslenskum tíma, eða 10:20 að staðartíma.

Tyrkneskir miðlar hafa eftir heimildarmönnum sínum innan stjórnkerfisins að grun­ur leik­i á að um hryðju­verka­árás hafi verið að ræða.

Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi nú í hádeginu þar sem hann sagði sjálfsvígssprengjumanninn hafa verið „af sýrlenskum uppruna“.

Epypska broddsúlan.Vísir/getty
Lögregla hefur girt af stórt svæðið og eru fjöldi sjúkrabíla og lögreglubíla á vettvangi.

Sprengjuárásir hafa verið tíðar í Tyrklandi síðustu  mánuði. Rúmlega þrjátíu manns féllu í árás fyrir utan lestarstöð í höfuðborginni Ankara í júlí og í október fórust 103 í árás sjálfsvígssprengjumanna í friðargöngu í Ankara.

Þýsk yfirvöld hafa hvatt alla Þjóðverja til að forðast fjölmenna ferðamannastaði í Istanbúl.

Hürriyet greinir frá því að starfsmenn öryggislögreglu telji að árásarmanninn hafa tengsl við ISIS.





Several people believed injured in explosion in Sultanahmet tourist district in Istanbul http://trib.al/QSvdjFU

Posted by Sky News on Tuesday, 12 January 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×