Körfubolti

KR fer til Grindavíkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
KR-ingar fara til Grindavíkur.
KR-ingar fara til Grindavíkur. Vísir

Íslandsmeistarar KR mæta Grindavík á útivelli í undanúrslitum Powerade-bikarkeppni karla í körfubolta en dregið var í hádeginu í dag.

8-liða úrslitum karla lýkur með viðureign Njarðvíkur-B og Keflavíkur í Ljónagryfjunni klukkan 19.15 í kvöld. Sigurvegari þess leiks mætir Þór í Þorlákshöfn.

KR er í öðru sæti Domino's-deildar karla með átján stig, tveimur á eftir toppliði Keflavíkur. Grindavík, sem sló bikarmeistara Stjörnunnar úr leik í 16-liða úrslitunum, er í níunda sætinu með átta stig.

Tveir heimaleikir hjá Grindavík
Bikarmeistarar Grindavíkur, sem sló topplið Hauka úr leik í 8-liða úrslitunum, fékk einnig heimaleik og mætir Stjörnunni í undanúrslitunum í kvennaflokki. Grindavík er í fjórða sæti deildarinnar en Stjarnan því sjötta.

Íslandsmeistarar Snæfells fengu hörkuleik á útivelli gegn Keflavík sem er komið með nýjan þjálfara, Sverri Sverisson, eftir að Margréti Sturlaugsdóttur var sagt upp störfum á dögunum.

Snæfellingar eru í öðru sæti Domino's-deildar kvenna en Keflavík því þriðja.

Undanúrslitaleikirnir fara fram dagana 23.-25. janúar.

Undanúrslit karla:
Grindavík - KR
Þór Þorlákshöfn - Njarðvík-B/Keflavík

Undanúrslit kvenna:
Grindavík - Stjarnan
Keflavík - SnæfellAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira