Innlent

Fjárkúgunarmálið bíður á borði héraðssaksóknara

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Tveir mánuðir eru frá því að lögreglan lauk rannsókn málsins.
Tveir mánuðir eru frá því að lögreglan lauk rannsókn málsins.

Fjárkúgunarmálið situr nú á borði nýstofnaðs embættis héraðssaksóknara. Tveir mánuðir eru frá því að lögreglan lauk rannsókn málsins og sendi það áfram til ríkissaksóknara. Þaðan fór málið svo til héraðssaksóknara til afgreiðslu um áramótin, líkt og fjölmörg önnur mál.

Ekki er búið að taka ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út í málinu, samkvæmt upplýsingum frá embættinu.

Málið snýst um tilraun til fjárkúgunar systranna Hlínar Einarsdóttur og Malínar Brand gegn forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Bréf barst á heimili Sigmundar þar sem þess var krafist að hann greiddi 8 milljónir króna eða upplýsingar sem sagðar voru viðkvæmar fyrir ráðherrann yrðu gerðar opinberar.

Systurnar voru svo handteknar og yfirheyrðar af lögreglu þegar þær ætluðu að sækja fjármunina sem koma átti fyrir í tösku úti í hrauninu við Vallarhverfið í Hafnarfirði. Lögreglan beið þar eftir þeim í felum en hún hafði komið tösku fyrir á staðnum sem bréfið sagði til um.
Fleiri fréttir

Sjá meira