Innlent

Ættleiðing flóttabörnum ekki fyrir bestu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ólöf Nordal.
Ólöf Nordal. vísir/anton brink

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir það fylgdarlausum börnum í flóttamannabúðum ekki fyrir bestu að auðvelda ferli við ættleiðingu á þeim til annarra landa. Nærtækara sé að efla og styrkja það alþjóðlega mannúðarstarf sem þegar sé til staðar í flóttamannabúðum.

Þetta kemur fram í svari hennar við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um ættleiðingar á munaðarlausum börnum úr flóttamannabúðum.

Jóhanna spurði meðal annars hvort skoðaður hefði verið sá möguleiki á að Íslendingar ættleiði börn frá svæðum sem flóttamenn komi frá á næstu mánuðum og hvort hún hyggist beita sér fyrir því að auðvelda slíkar ættleiðingar.

Mansal viðurkennt í tengslum við ættleiðingar
Ólöf vísaði til Haag-samningsins um ættleiðingar frá árinu 1993, sem Ísland er aðili að. Í honum sé áréttað að hverju aðildarríki beri að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að börn geti notið umsjár upprunalegrar fjölskyldu sinnar, enda í grundvallaratriðum sé gert ráð fyrir að barni sé almennt fyrir bestu að alast upp hjá foreldrum sínum eða fjölskyldu sinni. Ættleiðing milli landa geti því aðeins komið til álita ef barn eigi ekki þess kost að alast upp hjá viðeigandi fjölskyldu í heimalandi sínu. Um sé að ræða grundvallarreglu í alþjóðasamningum og því beri að taka mið af henni við alla stefnumótum og framkvæmd.

Ólöf segir jafnframt að viðurkennt sé að mansal eða sala á börnum í tengslum við ættleiðingar milli landa eigi sér stað. „Sem dæmi hér um er rétt að nefna að í kjölfar hamfaranna á Haítí taldi sérfræðinganefnd um Haag-samninginn nauðsynlegt að vekja athygli á aukinni hættu á mansali eða sölu á börnum sem getur skapast í kjölfar styrjalda eða náttúruhamfara. Við þær aðstæður beri að setja í algeran forgang að sameina barn og foreldra eða upprunafjölskyldu. Ótímabærar umsóknir um ættleiðingar eða umsóknir utan hefðbundinna leiða beri markvisst að forðast og stöðva,“ segir hún.

Rétt að varast slíkar ættleiðingar
Aðspurð hvort önnur lönd séu með ákveðið fyrirkomulag á ættleiðingum á munaðarlausum börnum úr flóttamannabúðum segir hún innanríkisráðuneytið hafa sent fyrirspurnir þess efnis til danskra, finnskra, norskra og sænskra stjórnvalda. Líkt og á Íslandi séu engar fyrirliggjandi heimildir sem leyfi ættleiðingar úr flóttamannabúðum og að engar breytingar þar á séu fyrirhugaðar.  Til að mynda telji finnsk stjórnvöld rétt að varast slíkar ættleiðingar þar sem margvíslegar hættur tengist þeim. Ættleiðing milli landa eigi einungis að koma til álita eftir að kannað hafi verið til þrautar hvort mögulegt sé að ráðstafa barni með fullnægjandi hætti í heimalandi þess.

„Í svari finnskra stjórnvalda er einnig bent á að mögulega geti fylgdarlaust barn í flóttamannabúðum átt foreldra eða nána ættingja á lífi. Þá er lögð þung áhersla á að mikilvægt sé að fá samþykki líffræðilegra foreldra barns fyrir ættleiðingu. Ef þau séu á hinn bóginn talin af verði að liggja fyrir staðfesting þess efnis með fullgildum dánarvottorðum. Þannig sé einfaldlega ekki nærri alltaf hægt að ganga úr skugga um það með óyggjandi hætti að börn í flóttamannabúðum séu í raun í þeirri stöðu að ættleiðing sé ásættanlegt úrræði. Önnur ríki á Norðurlöndunum hafa tekið undir þessi sjónarmið Finna,“ segir Ólöf.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira