Innlent

Vill fá skýringar á aðförum lögreglunnar

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglan flutti ungmennin á lögreglustöðina á Akranesi þar sem leit fór fram. Nafnlaust símtal hafði borist um fíkniefni í bílnum en ekkert fannst.
Lögreglan flutti ungmennin á lögreglustöðina á Akranesi þar sem leit fór fram. Nafnlaust símtal hafði borist um fíkniefni í bílnum en ekkert fannst. vísir/vilhelm

Bæjarstjórinn á Akranesi, Regína Ásvaldsdóttir, hefur óskað skýringa frá lögreglunni á Vesturlandi vegna þess að barnavernd eða foreldrar voru ekki kölluð til þegar sextán ára stúlka var handtekin og henni gert að afklæðast svo hægt væri að leita að fíkniefnum. Atvikið átti sér stað síðla í ágúst í fyrra en greint var frá því í Fréttablaðinu í gær.

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness

„Við erum með bakvakt allan sólarhringinn. Það á að kalla barnaverndarstarfsmenn út þegar barn er handtekið en hefur ekki verið gert í þessu máli,“ segir Regína. „Við höfum átt gott samstarf við lögregluna í þessum málum og því kemur þetta á óvart.“

Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir að lögreglan hafi lagalega skyldu til að hafa samband við barnavernd þegar einstaklingur undir lögaldri er handtekinn.

Hann segir að lögreglu beri að fá dómsúrskurð fyrir líkamsleit sé þess kostur. „Hún má hins vegar framkvæma líkamsleit án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.“

Samkvæmt lögregluskýrslu í málinu, sem rituð var 22 dögum eftir atvikið, fékk lögreglan á Vesturlandi nafnlausa ábendingu þess efnis að fíkniefni væri að finna í bíl sem stúlkan var farþegi í og að ökumaður bílsins væri undir áhrifum fíkniefna. Í kjölfarið var hún og aðrir í bílnum færðir á lögreglustöð þar sem stúlkunni var sagt að afklæðast og beygja sig fram svo hægt væri að skoða kynfæri henni og rass án snertingar. Engin fíkniefni fundust.

„Þarna finnst mér mestur vafi leika á hvort það var rökstuddur grunur og hvort ekki hafi mátt bíða eftir dómsúrskurði. Í fíkniefnabrotamálum er algengt að það sé látið nægja að lögreglan vísi til þess að nafnlaus heimildarmaður, eða heimildarmaður sem lögreglan treystir, hafi haft samband með upplýsingar,“ segir Sigurður. Hann spyr sig hvort svo rík þörf hafi verið fyrir skjótum viðbrögðum að ekki hefði mátt bíða eftir dómsúrskurði.

Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík

„Ef þú samþykkir leit þá kemur það í stað úrskurðar. Þegjandi samþykki dugir ekki og það er ekki hægt að segja að hún hafi ekki mótmælt leit og þar með samþykkt hana,“ segir Sigurður. Samkvæmt stefnu á hendur íslenska ríkinu sem liggur fyrir í málinu hlýddi stúlkan lögreglu og „laut boðvaldi lögreglumanna í einu og öllu“ en samþykki lá ekki fyrir.

Hann segir að lögreglan hafi heimildir til að rannsaka en ef ekkert finnist séu góðar líkur á bótum. „Þetta er auðvitað ofsalega niðurlægjandi framkvæmd, það getur hver séð í hendi sér.“
Lögreglustjórinn í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi kýs að tjá sig ekki um málið. 


Tengdar fréttir

Létu 16 ára stúlku afklæðast á Akranesi

Nafnlaus ábending um fíkniefnavörslu varð til þess að ungmenni voru handtekin á Vesturlandi. Leitað var innanklæða á 16 ára stúlku. Hvorki var haft samband við foreldra stúlkunnar né barnaverndaryfirvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira