Erlent

59 handteknir eftir hryðjuverkaárásina í Istanbúl

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð við Bláu moskuna í Istanbúl. Tíu manns fórust og fimmtán særðust.
Árásin var gerð við Bláu moskuna í Istanbúl. Tíu manns fórust og fimmtán særðust. Vísir/AFP
Lögregla í Tyrklandi hefur handtekið 59 manns vegna gruns um að tengjast hryðjuverkasamtökunum ISIS. Handtökurnar eru gerðar í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar í Istanbúl þar sem tíu manns fórust, aðallega þýskir ferðamenn.

Sky News greinir frá því að húsleit hafi verið gerð á 22 stöðum í suðausturhluta landsins í héruðunum Sanliurfa, Adana og Gazientep.

Að sögn tyrkneska fjölmiðilsins Dogan eru þrír Rússar á meðal hinna handteknu, en þeir voru gripnir í Antalya.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði að sjálfsvígssprengjumaðurinn hafi verið sýrlenskur að uppruna og fæddur árið 1988. Ahmet Davutoglu forsætisráðherra sagði hann tengjast hryðjuverkasamtökunum ISIS.

Árásin var gerð í Sultanahmet-hverfi Istanbúl-borgar, hjá egypsku broddsúlunni sem stendur við Bláu moskuna.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni. Auk þeirra tíu sem féllu þá særðust fimmtán manns, þeirra á meðal norskir, tyrkneskir, þýskir, perúskir og suður-kóreskir ferðamenn.

Undanfarna mánuði hafa nokkrar mannskæðar sprengjuárásir verið gerðar í Tyrklandi. Meira en hundrað manns létu lífið í höfuðborginni Ankara í október, þegar tvær sjálfsvígsárásir voru gerðar þar samtímis. Þá létu meira en þrjátíu manns lífið í júlí í sprengjuárás í bænum Suruc, sem er skammt frá landamærum Sýrlands.


Tengdar fréttir

Öflug sprenging í Istanbúl

Tyrkneskir miðlar segja að tíu manns hið minnsta hafi látið lífið í sjálfsvígssprengjuárás í Sultanahmet-hverfinu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×