Fótbolti

Helsti aðstoðarmaður Blatter rekinn frá FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Enn eitt spillingarmálið er komið upp hjá FIFA og nú hefur Jerome Valcke verið rekinn.
Enn eitt spillingarmálið er komið upp hjá FIFA og nú hefur Jerome Valcke verið rekinn. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur tilkynnt að Jerome Valcke, framkvæmdastjóra, hefur verið sagt upp störfum.

Valcke var lengi hægri hönd Sepp Blatter, fráfarandi forseta FIFA, sem var nýverið dæmdur í átta ára bann frá knattspyrnu.

Valcke var framkvæmdastjóri FIFA í átta ár en liggur nú undir grun að hafa selt miða á HM 2014 í Brasilíu á svörtum markaði. FIFA hefur farið fram á að siðanefnd FIFA taki mál hans fyrir og hefji rannsókn.

Honum er gefið að sök að hafa selt dýrustu miðana á leiki á HM í Brasilíu á þreföldu uppgefnu verði og að hann hafi stungið hagnaðinum í vasann. Um tæplega níu þúsund miða var að ræða samkvæmt óstaðfestum fregnum.

Valcke var dæmdur í 90 daga tímabundið bann af siðanefndinni þann 8. október vegna málsins og í síðustu viku var bannið framlengt um 45 daga.

Lögmaður Valcke hefur neitað sök fyrir hönd skjólstæðings síns en ljóst er að dagar hans sem starfsmaður FIFA eru taldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×