Innlent

Öryrkjum hefur fjölgað um 29 prósent frá 2005

Atli Ísleifsson skrifar
Hlutfall karla og kvenna hefur haldist nokkuð jafnt frá árinu 2005, konur eru 60 prósent öryrkja en karlar 40 prósent.
Hlutfall karla og kvenna hefur haldist nokkuð jafnt frá árinu 2005, konur eru 60 prósent öryrkja en karlar 40 prósent. Vísir/Anton
Öryrkjum fjölgaði um 29 prósent frá nóvember 2005 til nóvember 2015. Þetta kemur fram í yfirliti sem velferðarráðuneytið hefur tekið saman um þróun örorku á Íslandi.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að frá árinu 2005 hafi mest fjölgun verið á aldursbilinu 65 til 66 ára, eða 58 prósent, en fjölgunin verið minnst í aldurshópnum 40 til 49 ára.

„Í yngsta hópnum, 16-19 ára, hefur orðið mikil fækkun en í nóvember 2015 voru engu að síður 156 öryrkjar í þeim hópi. Í því sambandi verður að hafa hliðsjón af því að með lagabreytingu sem tók gildi 1. janúar 2010 miðast lágmarksaldur örorkulífeyrisþega við 18 ár en var 16 ár áður.

Frá árinu 2010 hefur fjölgun öryrkja verið nokkuð stöðug og hefur þeim fjölgað um 1,7-2,1% á milli ára. Frá nóvember 2014 til nóvember 2015 hægði á þeirri fjölgun og hefur öryrkjum einungis fjölgað um 1,3 á því tímabili. Hlutfall karla og kvenna hefur haldist nokkuð jafnt frá árinu 2005, konur eru 60% öryrkja en karlar 40%.“

Meginorsakir örorku eru geðraskanir og stoðkerfissjúkdómar.

Nánar má lesa um þróun örorku í frétt velferðarráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×