Fótbolti

Börsungar hentu nágrönnunum út úr spænska bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Munir El Haddadi skoraði tvö mörk í kvöld.
Munir El Haddadi skoraði tvö mörk í kvöld. Vísir/EPA

Barcelona vann 2-0 útisigur á Espanyol í kvöld í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum spænska konungsbikarsins í fótbolta.

Barcelona vann fyrri leikinn 4-1 á heimavelli sínum og þar með 6-1 samanlagt. Lionel Messi skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar í fyrri leiknum en náði ekki að skora í kvöld í fyrsta leik sínum eftir að hann fékk Gullboltann í fimmta sinn.

Hinn tvítugi Munir El Haddadi skoraði bæði mörk Barcelona í leiknum, það fyrra á 31. mínútu eftir stoðsendingu Lionel Messi og það seinna á 87. mínútu eftir sendingu Aleix Vidal.

Lionel Messi var í byrjunarliði Barcelona og spilaði allan leikinn en þeir Luis Suárez (leikbann) og Neymar voru ekki með. Neymar var ónotaður varamaður í leiknum.

Fleiri lið komust áfram í átta liða úrslitin í kvöld en það voru Celta Vigo, Athletic Bilbao og Las Palmas. Sevilla og Mirandés komust áfram í gær og tveir síðustu leikirnir fara fram á morgun.

Á morgun mætast Granada og Valencia annarsvegar og Atlético Madrid og Rayo Vallecano hinsvegar. Valencia hefur 4-0 forystu frá fyrri leiknum en fyrri leikur  Rayo Vallecan og Atlético Madrid endaði með 1-1 jafntefli.Fleiri fréttir

Sjá meira