Fótbolti

Börsungar hentu nágrönnunum út úr spænska bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Munir El Haddadi skoraði tvö mörk í kvöld.
Munir El Haddadi skoraði tvö mörk í kvöld. Vísir/EPA

Barcelona vann 2-0 útisigur á Espanyol í kvöld í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum spænska konungsbikarsins í fótbolta.

Barcelona vann fyrri leikinn 4-1 á heimavelli sínum og þar með 6-1 samanlagt. Lionel Messi skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar í fyrri leiknum en náði ekki að skora í kvöld í fyrsta leik sínum eftir að hann fékk Gullboltann í fimmta sinn.

Hinn tvítugi Munir El Haddadi skoraði bæði mörk Barcelona í leiknum, það fyrra á 31. mínútu eftir stoðsendingu Lionel Messi og það seinna á 87. mínútu eftir sendingu Aleix Vidal.

Lionel Messi var í byrjunarliði Barcelona og spilaði allan leikinn en þeir Luis Suárez (leikbann) og Neymar voru ekki með. Neymar var ónotaður varamaður í leiknum.

Fleiri lið komust áfram í átta liða úrslitin í kvöld en það voru Celta Vigo, Athletic Bilbao og Las Palmas. Sevilla og Mirandés komust áfram í gær og tveir síðustu leikirnir fara fram á morgun.

Á morgun mætast Granada og Valencia annarsvegar og Atlético Madrid og Rayo Vallecano hinsvegar. Valencia hefur 4-0 forystu frá fyrri leiknum en fyrri leikur  Rayo Vallecan og Atlético Madrid endaði með 1-1 jafntefli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira