Erlent

Fimm grunaðir um aðild að árásinni í Istanbúl

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Mennirnir fimm eru taldir vitorðsmenn árásarmannsins.
Mennirnir fimm eru taldir vitorðsmenn árásarmannsins. vísir/afp

Fimm hafa verið handteknir í tengslum við árásina í Istanbúl í Tyrklandi á mánudag þar sem tíu biðu bana. Árásarmaðurinn var flóttamaður frá Sýrlandi sem talinn er hafa verið liðsmaður hryðjuverkasamtakanna ISIS, að því er segir á vef Guardian.

Mennirnir fimm eru grunaðir um aðild að árásinni og jafnframt taldir tengjast Íslamska ríkinu. Á sjötta tug hafa verið handteknir, grunaðir um tengsl við samtökin, undanfarna daga og húsleit hefur verið gerð á um þrjátíu stöðum í suðurhluta landsins.

Tyrknesk yfirvöld greindu frá því í gærkvöldi að árásarmaðurinn hafi komið til landsins sem flóttamaður. Hann hafi þó ekki verið undir sérstöku eftirliti, líkt og margir aðrir flóttamenn.  Alls féllu tíu í árásinni, allt þýskir ferðamenn, og fimmtán særðust.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en undanfarna mánuði hafa nokkrar mannskæðar sprengjuárásir verið gerðar í Tyrklandi. Yfir hundrað manns féllu þegar tvær sjálfsvígsárásir voru gerðar í höfuðborginni Ankara í október, og yfir þrjátíu manns í árás sem gerð var í bænum Suruc í júlí síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Öflug sprenging í Istanbúl

Tyrkneskir miðlar segja að tíu manns hið minnsta hafi látið lífið í sjálfsvígssprengjuárás í Sultanahmet-hverfinu í morgun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira