Handbolti

Spá íslenska liðinu áttunda sætinu á EM í Póllandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónson.
Snorri Steinn Guðjónson. Vísir/Ernir

Blaðamenn EHF á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi hafa sett saman í spá um það hvaða þjóðir enda í tíu efstu sætunum á Evrópumótinu sem hefst á morgun.

Það eru þeir Vladislav Brindzak, Björn Pazen, Eric Willemsen, Peter Bruun, Paul Bray og Nemanja Savic sem spá fyrir heimasíðu keppninnar.

Íslenska landsliðinu er spáð áttunda sætinu í spánni en Norðmenn, mótherjar Íslands í fyrsta leik liðsins, er spáð tíunda sætinu.

Spámennirnir segja að íslenska landsliðinu takist alltaf að finna óslípaðan demant í sínum röðum á þessum stórmótum og þeir búist við það hjálpi liðinu til að vinna á móti meiðslum lykilmanna eins og þeirra hjá Alexander Petersson.

Í greininni er einnig talað  um hinn eldfljóta Guðjón Val Sigurðsson sem og besta leikmann liðsins, Aron Pálmarsson, en mikið verður á herðum Arons í sóknarleik íslenska liðsins á þessu Evrópumóti.

Íslenska liðið getur komið á óvart á þessu móti samkvæmt palladómum spekinga EHF og nú er bara að vona að Ísland finni enn á ný demant í hópnum og að litla Ísland slái einu sinni enn í gegn á stórmóti.

Spekingarnir eru á því að Spánn verði Evrópumeistari, Frakkar taki silfrið og gestgjafar Pólverjar fái bronsið.  Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu komast í undanúrslitin samkvæmt þessari spá en missa af verðlaunum og enda í fjórða sæti.

Strákarnir hans Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu komst ekki í hóp tíu bestu þjóðanna samkvæmt spánni en Þjóðverjar eru í mjög erfiðum riðli með Spáni, Svíþjóð og Slóveníu en allar þær þjóðir enda meðal níu efstu í þessari spá.

Spá heimasíðu Evrópumótsins:
Evrópumeistari: Spánn
2. sæti: Frakkland
3. sæti: Pólland
4. sæti: Danmörk
5. sæti: Króatía
6. sæti: Slóvenía
7. sæti: Ungverjaland
8. sæti: Ísland
9. sæti: Svíþjóð
10. sæti: Noregur


Tengdar fréttir

Arnór og Vignir saman í einangrun

"Við fengum vökva í æð í morgun og ég held að við verðum tilbúnir á morgun,“ segir hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson en hann og línumaðurinn Vignir Svavarsson fengu magakveisu en eru á batavegi.

Bjarki: Ég er orðinn 100 prósent

"Ég er allur að koma til og verð í toppstandi á morgun,“ segir varnarjaxlinn Bjarki Már Gunnarsson en hann hefur verið spurningamerki í undirbúningi landsliðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira