Handbolti

Strákarnir hans Patreks töpuðu í Rúmeníu en náðu inn dýrmætu marki í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson þjálfar landslið Austurríkis.
Patrekur Jóhannesson þjálfar landslið Austurríkis. Vísir/Getty

Austurríska handboltalandsliðið tapaði í kvöld með þriggja marka mun á móti Rúmenum, 32-29, í undankeppni HM 2017 en þjóðirnar eru í keppni um laust sæti í umspilinu í sumar.

Patrekur Jóhannesson var búinn að stýra austurríska landsliðinu til sigurs í fjórum fyrstu leikjum sínum og þar á meðal var 27-24 sigur í fyrri leiknum gegn Rúmenum.

Rúmenar unnu líka með þremur mörkum og því standa liðin jöfn innbyrðis fyrir lokaumferð riðilsins. Sigur Rúmena skilaði þeim þó sex mörkum í betri markatölu og það þurfa Austurríkismenn að vinna upp í lokaleik sínum á móti Finnum. Heildarmarkatala mun nú ráða endi liðin jöfn að stigum sem er mjög líklegt úr þessu.

Thomas Kandolf minnkaði muninn í þrjú mörk 22 sekúndum fyrir leikslok og það gæti verið afar dýrmætt mark fyrir austurríska liðið. Hefði Kandolf ekki skorað þá hefðu Rúmenar alltaf verið ofar á innbyrðisárangri ef liðin enda með jafnmörg stig.

Rúmenska liðið náði mest sex marka forystu í seinni hálfleiknum en Austurríkismenn gáfust ekki upp og tókst að minnka muninn í þrjú mörk fyrir leikslok. Nikola Bilyk skoraði 9 mörk fyrir Austurríki og Raul Santos var með 6 mörk úr 6 skotum.

Það er bara ein umferð eftir í riðlinum og þar þurfa Austurríkismenn að vinna Finna stórt á heimavelli og treysta á það að Rúmenar vinni ekki stórt á Ítalíu. Rúmenar unnu fyrri leikinn sinn gegn Ítölum með þrettán marka mun þannig að sigurinn á Finnum þarf ef til vill að vera mjög stór.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira