Enski boltinn

Ranieri: Erum ekki enn teknir alvarlega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. Vísir/Getty

Claudio Ranieri, stjóri Leicester, segir að lið hans sé ekki tekið alvarlega í titlbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni.

Leicester vann 1-0 sigur á Tottenham í vikunni og er í öðru sæti deildarinnar með jafn mörg stig en lakara markahlutfall og topplið Arsenal. Liðið mætir botnliði Aston Villa á morgun.

„Það er auðvelt að segja að Leicester muni berjast um titilinn en það eru fáir sem trúa því virkilega,“ sagði Ranieri við enska fjölmiðla.

„Allir reikna með því að fyrr eða síðar muni hægja á Leicester. Það er reiknað með því að Arsenal, Tottenham, United, City og Chelsea berjist um titilinn eins og þau eru vön að gera. Svo er sagt að Leicester sé þarna líka en getur liðið þraukað til enda?“

„Ég er hvorki glaður né óánægður. Ég hugsa ekki um önnur lið. Ég einbeiti mér bara að Leicester.“

Sjálfur hefur Ranieri ítrekað gert lítið úr möguleikum Leicester á titlinum en hann segir að leikmenn hans séu farnir að trúa á það, hægt og rólega.

„Þeir eru farnir að trúa því að þeir geti gert eitthvað sérstakt. Það er auðvitað ekki aðuvelt en mikilvægt að reyna. Stundum þarf maður að vera með smá lukku með sér í liði.“

„Leikmenn voru afar ósáttir við að gera jafntefli við United og City. Þeim leið eins og að þeir hefðu tapað leiknum. Það var frábært því það sýndi hversu mikið þeir vildu vinna leikina.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira