Innlent

Spá suðaustan strekkingi með snjókomu í kvöld á Suður- og Vesturlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Spákort frá Veðurstofu Íslands sem sýnir veðrið eins og það á að vera seint í kvöld.
Spákort frá Veðurstofu Íslands sem sýnir veðrið eins og það á að vera seint í kvöld. Vísir/vedur.is
Veðurstofa Íslands vekur athygli á því að spáð er suðaustan strekkingi með snjókomu seint í kvöld á Suður- og Vesturlandi. Samkvæmt spá veðurfræðings mun dagurinn byrja nokkuð vel með hægum vindi um allt land og víða léttskýjað.

Um og eftir hádegi bætir hins vegar í vindinn sunnan- og vestanlands, þykknar upp og í kvöld stefnir í suðaustan 8-15 m/s og snjókomu um allt S- og V-vert landið, vestur af Öræfum og suður af Vestfjörðum. Með þessum strekkingsvindi og snjókomu getur dregið úr skyggni víða á þessu svæði, til dæmis á Hellisheiði.

Í nótt dregur úr vindi og hlýnar í veðri og því líklegt að úrkoman fari út í slyddu og jafnvel rigningu. Eftir hádegi á morgun styttir að mestu upp V-lands, en slydda eða rigning um S-vert landið fram á nótt, einkum SA-til.

Í dag og á morgun er útlit fyrir hægan vind og bjart og þurrt veður fyrir norðan og austan, en dálítil úrkoma gæti þó náð inn á Austfirði á morgun, snjókoma eftir hádegi, en síðan slydda annað kvöld.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag og mánudag:

Austan átt 5-13 m/s, skýjað og dálítil slydda eða snjókoma suðaustantil, en bjart veður um landið norðvestanvert. Frost víða 3 til 8 stig, en sums staðar frostlaust við suður- og suðvesturströndina.

Á þriðjudag:

Austlæg átt 5-13 m/s og rigning með köflum, en hægari vindur norðanlands og þurrt. Hiti víða 0 til 5 stig, en vægt frost í innsveitum norðanlands.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir milda suðlæga átt með dálítilli vætu.

Á fimmtudag:

Líklega hvöss suðaustanátt með rigningu.

Vakin er athygli á að spáð er suðaustan strekkingi með snjókomu seint í kvöld á S- og V-landi. - Strong breeze and snow is forecasted in the south and west by evening.

Posted by Veðurstofa Íslands on Friday, January 15, 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×