Handbolti

Með stjörnur í augunum er hann borðaði með Balic

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Akureyringinn Guðmundur Hólmar Helgason, leikmaður Vals, er nýliðinn í íslenska landsliðinu og er mættur á sitt fyrsta stórmót.

„Ég er virkilega spenntur og það er ótrúlega gaman að fá að taka þátt í þessu,“ segir Guðmundur Hólmar en hvað er skemmtilegast við að vera mættur á stórmót?

„Það er þessi upplifun. Að fá að hitta alla þessa leikmenn sem maður er búinn að fylgjast með síðan maður var gutti. Fá líka að æfa með þessum strákum sem maður hefur fylgst með síðan maður var lítill. Eins og í morgunmatnum að þá var bara Ivano Balic á borðinu við hliðina á mér. Þetta er þvílíkt gaman og forréttindi.“

Sjá einnig: Ísland er sigurstranglegra liðið

Þó svo Guðmundur Hólmar hafi verið með stjörnur í augunum er hann sá Balic þá sat hann á strák sínum og bað ekki um mynd með honum.

„Ég var með fiðrildi í maganum en út á við þá reynir maður að halda „kúlinu“. Maður er ekkert að vingast við óvininn.“

Þessi hrausti norðanmaður steig heldur betur upp í undirbúningsleikjunum og heillaði marga með frammistöðu sinni.

„Ég er nokkuð sáttur með mitt. Ég er smátt og smátt að fá stærra hlutverk í þessu liði og hef aðeins fengið að koma fram yfir miðju. Það er mjög jákvætt enda var mér farið að líða eins og Sverre á tímabili,“ segir Hólmar glottandi en hann er þar vitanlega að tala um sveitunga sinn Sverre Jakobsson sem stóð vaktina lengi í vörn íslenska liðsins.

Þó svo Guðmundur væri að reyna að halda ró sinni og yfirvegun þá mátti sjá spenninginn í honum. Það verður stór stund fyrir hann er þjóðsöngurinn verður leikinn í kvöld.

Sjá einnig: Aron: Við vitum að þeir eru góðir en við erum líka góðir

„Það eru æskudraumar að rætast hjá mér. Ég verð að reyna að halda stressinu í lágmarki og ánægjunni í hámarki,“ segir Guðmundur Hólmar en þökk sé herbergisfélaga hans, Alexander Peterssyni, þá sefur hann vel á nóttunni.

„Hann passar upp á að ég sofi eins og barn allar nætur. Hann fer með lettneskar vögguvísur fyrir mig.“

Sjá má viðtalið við Guðmund Hólmar í heild sinni hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).


Tengdar fréttir

Arnór og Vignir saman í einangrun

"Við fengum vökva í æð í morgun og ég held að við verðum tilbúnir á morgun,“ segir hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson en hann og línumaðurinn Vignir Svavarsson fengu magakveisu en eru á batavegi.

Bjarki: Ég er orðinn 100 prósent

"Ég er allur að koma til og verð í toppstandi á morgun,“ segir varnarjaxlinn Bjarki Már Gunnarsson en hann hefur verið spurningamerki í undirbúningi landsliðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira