Handbolti

Björgvin: Leyfi jákvæðu tilfinningunum að skína skært á stórmótum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson var léttur eftir æfingu landsliðsins í gær enda elskar hann að fara á stórmót.

„Ég veit ekki númer hvað þetta stórmót er hjá mér en ég hef verið með á öllum mótum síðan 2008,“ segir Björgvin Páll en er alltaf sami fiðringurinn er hann mætir á stórmót?

„Mér finnst hann alltaf vera öðruvísi. Við fórum ekki alveg með hreina samvisku til Katar enda áttum við ekki skilið að vera þar. Við börðumst fyrir þessu, eigum skilið að vera hérna og ætlum að njóta þess í botn.“

Sjá einnig: Aron: Verðum að setja markið hátt

Björgvin og strákarnir í landsliðinu eru alltaf metnaðarfullir og ætla sér stóra hluti á þeim mótum sem þeir taka þátt í.

„Okkar markmið er alltaf að gera vel og það er frábært að byrja gegn Noregi og koma sér vel af stað. Norðmenn eru með flott lið og verða betri með hverju árinu. Þeir hafa verið á siglingu en við ætlum að stöðva þá. Í svona móti skiptir fyrsti leikurinn mjög miklu máli. Hér eru bara sterkar þjóðir og engir auðveldir leikir eins og á HM.“

Eins og áður segir elskar Björgvin Páll stórmót en er þetta það skemmtilegasta sem hann gerir?

„Já. Þetta er ástæðan fyrir því að maður byrjaði í handboltanum held ég. Þetta er stund sem maður lifir fyrir. Atvinnumennskan er eitthvað allt annað en landsliðið. Ef maður væri ekki í landsliðinu og alltaf á stórmótum þá er ég ekkert viss um að ég væri í þessu,“ segir Björgvin en það dylst engum hvað honum finnst gaman að spila á svona mótum.

Sjá einnig: Með stjörnur í augunum er hann borðaði með Balic

„Ég er mikil tilfinningavera og leyfi jákvæðu tilfinningunum að skína skært á þessum stórmótum. Reyni að nýta mér það í vörðum boltum og smita út frá mér. Það er best að gera það í íslenska landsliðinu þar sem gleðin er alltaf við völd.“

Það er ekki alltaf auðvelt líf að vera markvörður á stórmóti. Á stundum er Björgvin hetjan sem vann leiki og þess á milli skúrkurinn því hann varði ekki neitt.

„Það er ábyrgðin sem ég hef og ég vissi nú ekki þegar ég var átta ára að byrja í handbolta að ég fengi þessa ábyrgð á hverju einasta stórmóti.“

Sjá má viðtalið við Björgvin Pál í heild sinni hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).


Tengdar fréttir

Ísland er sigurstranglegra liðið

Hinn leikreyndi Erlend Mamelund var yfirvegaður og með báða fætur á jörðinni er Fréttablaðið hitti hann á blaðamannafundi norska landsliðsins í gær.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira