Handbolti

Króatar unnu fyrsta leikinn á EM eftir vandræði í fyrri hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ivan Sliskovic, samherji Arons Pálmarssonar hjá Veszprém, fer í gegn í kvöld.
Ivan Sliskovic, samherji Arons Pálmarssonar hjá Veszprém, fer í gegn í kvöld. vísir/valli

Króatía nældi í fyrstu tvö stigin sem í boði voru á EM 2016 í handbolta þegar liðið lagði Hvíta-Rússland, 27-21, í Spodek-höllinni í Katowice.

Þessi lið eru með Íslandi og Noregi í riðli en strákarnir okkar hefja leik klukkan 17.15 og má fylgjast með þeim leik í beinni textalýsingu hér.

Hvít-Rússar komu skemmtilega á óvart í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti, 8-5. Þeir áttu auðvelt með að skora á móti mjúkri og hægri vörn Króatíu.

Það hjálpaði líka til að Viaschslau Saldatsenka í marki Hvíta-Rússlands varði allt hvað af tók á meðan króatísku markverðirnir klukkuðu varla boltann. Það snerist við í seinni hálfleik.

Svo virtist sem króatíska liðið væri ekki alveg að nenna þessu í fyrri hálfleik, en í þeim síðari skiptu Króatarnir upp um gír og gengu frá leiknum smám saman.

Króatía var með svona þriggja marka forskot lengst af í fyrri hálfleik en munurinn var orðinn fimm mörk, 26-21, þegar fimm mínútur voru eftir. Hvít-Rússarnir voru þá sprungnir.

Króatar skoruðu eitt mark til viðbótar og unnu á endanum sex marka sigur, 27-21, og eru komnir með tvö stig í B-riðlinum.

Vinstri hornamaðurinn Manuel Strlek skoraði níu mörk úr ellefu skotum fyrir Króatíu en Ivan Stevanvic var öflugur í markinu í seinni hálfleik og varði tíu skot.

Hjá Hvíta-Rússlandi var stórskyttan Siarhei Rutenka markahæst með átta mörk, en hann skoraði sjö af þeim í fyrri hálfleik. Saldatsenka varði fimmtán skot og líkt og Rutenka gerði hann mest í fyrri hálfleik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira