Innlent

Lykillinn er að huga að upphafi starfsferils kvenna jafnt og karla

Sæunn Gísladóttir skrifar

Konur í æðstu stjórnunarstöðum landsins eru vel upplýstar um stöðu kynjanna, styðja að mestu leyti kynjakvóta í stjórnum og taka stefnumiðaðar ákvarðanir á vegferð sinni til árangurs. Margar telja sig hafa lagt meira á sig en karlmenn í sömu stöðu. Karlmenn komast fyrr út á atvinnumarkaðinn og fá eitthvert forskot strax í sínum fyrstu skrefum. Þetta eru niðurstöður Lísbetar Hannesdóttur, en hún varði í vikunni lokaverkefni í meistaranámi í forystu og stjórnun, Íslenskir kvenstjórnendur – vegferð og viðhorf, við Háskólann á Bifröst.

Lísbet segir að kveikjan að ritgerðinni hafi verið eigin reynsla að grunnnámi loknu. „Ég fann svolítið fyrir þessu að karlar komust áfram og konurnar sátu svolítið eftir. Þannig að ég fór að leiða hugann að því hvað konurnar sem höfðu náð hvað lengst höfðu gert, hvort einhver leið væri betri en önnur, eða einhver forskrift væri að árangri,“ segir Lísbet og bætir við að einnig hafi verið hvatning hve lítið af upplýsingum lægju fyrir um kvenstjórnendur.

Lísbet Hannesdóttir

Ritgerðin byggir á könnun sem 101 kona af lista Frjálsrar verslunar yfir 100 áhrifamestu konur landsins og lista FKA yfir konur í stjórnum tók þátt í, auk viðtala við fimm konur úr hverja úr sínum geiranum.

Hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra er aðeins 20 prósent að meðaltali á Íslandi. Lísbet segir óbilandi jákvæðni einkenna konurnar sem hún ræddi við. Kvenstjórnendur eru fleiri í minni fyrirtækjum. Lísbet telur það geta spilað inn í að stærstu fyrirtæki landsins starfi í karllægum heimi. „Þar eru menntunarkröfur raunvísindagreinar, til dæmis verkfræði, og þar eru konur færri.“

Konurnar í rannsóknini áttu margt sameiginlegt, meðal annars átti stór hluti þeirra foreldri eða fjölskyldumeðlim sem er stjórnandi. „Þær hafa þá bæði sterkari fyrirmyndir og hugsanlega tengsl inn í atvinnulífið,“ segir Lísbet. Kvenstjórnendur voru hins vegar líklegri til að hafa litið upp til feðra sinna í æsku en móður.

Allar konurnar tóku stefnumiðaðar ákvarðanir varðandi nám og barneignir. „Þeim fannst tími barneigna skipta meira máli. Margar töluðu um að barneignir væru betri fyrr en síðar. Það sem stakk mig pínu var að margar sögðu að það væri gott að geta sagst vera hættar barneignum í atvinnuviðtölum,“ segir Lísbet.

„Það sem mér fannst mikilvægast í þessu er sú niðurstaða að konur vilja vera jafnar körlum. Ég held að nú sé mjög krítískur tími til að jafna stöðu kynjanna. Ef konur eru alltaf skrefi á eftir, þá er ekki hagkvæmt fyrir fyrirtæki að fá kvenmann inn. Þarna verða fyrirtæki að sjá hag sinn í því að koma konum áfram, leita í háskólana og huga að kynjaskiptingu þegar þau gera það. Ef verið er að huga að upphafi starfsferils kvenna jafnt sem karla, þá tel ég að þetta muni breyast. Því reynslan skiptir svo gríðarlegu máli þegar sótt er um æðstu stjórnunarstöður.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira