Lífið

Farísear nútímans

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Magnús Þorkell Bernharðsson er prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum. Hann er staddur hér á landi í boði guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og flutti í vikunni fyrirlestur um DAISH-samtökin.
Magnús Þorkell Bernharðsson er prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum. Hann er staddur hér á landi í boði guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og flutti í vikunni fyrirlestur um DAISH-samtökin. Fréttablaðið/GVA
Meðal þess sem Magnús Þorkell skýrði frá í fyrirlestri sínum, var að ein helsta uppistaðan í DAISH eru fyrrverandi yfirmenn úr her Sadd­ams Hussein í Írak. Eftir innrásina 2003 var herinn þar lagður niður, sem reyndust afdrifarík mistök, ekki síst vegna þess að í framhaldinu gleymdist að tæma vopnabúr hersins þannig að þessir fyrrverandi hermenn gátu tekið vopnin með sér. Nú eru þeir lykilmenn í hernaði, bæði í Írak og Sýrlandi.

Þessir menn voru upp til hópa gjörsamlega trúlausir, enda var trúnni að mestu ýtt til hliðar í stjórnartíð Sadd­ams í Írak. Magnús er spurður hvernig þetta trúleysi herforingjanna fari heim og saman við þá grimmilegu öfgatrú sem DAISH-liðar boða.

„Það er reyndar með þessa hreyfingu, eins og margar aðrar, að þarna koma inn menn úr ýmsum áttum og með ólíkan bakgrunn. Þarna eru þessir hertæknimenn, sem eru vanir hertækni og hernaðarlist. Svo eru þarna aðrir sem gengu í þessi samtök út af einhverjum hugmyndafræðilegum forsendum. En síðan eru þarna einnig menn sem eru hreinlega bara ribbaldar. Þeir sjá þetta sem frábært tækifæri til að ganga um með byssu og fá að ræna, rupla, nauðga og svona.“

Fengu trúna í fangelsumHvað varðar hina trúuðu liðsmenn samtakanna sem koma þangað inn á hugmyndafræðilegum forsendum, þá segir Magnús að margir þeirra hafi setið í fangelsum í Írak, bæði á valdatíma Saddams og einnig eftir að hernámið hófst.

„Það vill nú oft verða þannig að á meðan fólk situr í fangelsi þá hugsar það sinn gang og verður oft fyrir trúarlegum áhrifum. Það er ekki svo óalgengt, og við höfum dæmi um að sumir þeirra sem voru í þessum íröksku fangelsum urðu fyrir áhrifum af einhverjum predikurum.“

Þetta gildir til dæmis um Abu Bakr Al Bagdadí, leiðtoga DAISH, sem Bandaríkjamenn hnepptu í fangelsi í Írak árið 2004. „Hann varð þá fyrir áhrifum frá einhverjum sem var að boða róttæka túlkun á íslam. Hann var nánast óþekktur þangað til hann lýsti því yfir fyrir tveimur árum að hann væri kalífi. En tökum þetta sem dæmi, því kalífi er ákveðið embætti innan hefðarinnar, svipað kannski og páfi eða biskup, en það eru ákveðnar klassískar hugmyndir í íslam um það hvaða eiginleikum kalífi eigi að vera gæddur.“

Magnús segir kalífa eiga til dæmis að vera örlátan, gestrisinn, lærðan og fyrst og fremst óumdeildan. Hann á auk þess alls ekki að lýsa því yfir sjálfur að hann sé kalífi, heldur eigi hann að vera valinn í þetta embætti.

„Fólk á að koma saman og komast að raun um að hann sé kalífi. En þessi maður sem sagt tekur sér þetta bessaleyfi og lýsir því yfir að hann sé kalífi. Hann notar þetta hugtak og þetta embætti til að koma á einhverju skipulagi fyrir þetta svokallaða íslamska ríki. Það er látið sem þetta sé trúarlegt embætti en 90 prósent af starfsemi þeirra hefur ekkert með trú að gera. Þetta er bara hversdagshernaður.”

Þykjast heilagri en aðrirSú öfgatrú, sem DAISH boðar, er einhvers konar afbrigði af wahabisma, hinni opinberu trú Sádi-Arabíu, sem stundum er einnig nefndur salafismi.

„Já, það eru margvíslegar tengingar þar, en þeir eru með sína eigin túlkun,“ segir Magnús. „Hugmyndin með salaf er að snúa aftur til forfeðranna, gera þetta eins og var á sjöundu öld af því að þá var gullöldin glæsilega. Þá gekk allt svo vel og þá var réttlætið svo mikið, þannig að við skulum þá reyna að skapa þannig stofnanir að þetta verði þannig í dag. Þetta er samt svo mótsagnakennt hjá þeim því um leið bera þeir svo mikla virðingu fyrir ýmsu sem gerst hefur síðar, og þeir virðast ekki sjá að þeir eru sjálfir afurð tuttugustu aldar. Þannig að þeir gera þetta bara eins og Sádarnir, sem nýta sér trúna til að viðhalda eigin stöðu og tryggja að engin alvöru gagnrýni komi upp. Þannig hafa Sádarnir náð að búa til sitt ríki.“

Magnús segir að hinir strangtrúuðu DAISH-menn, rétt eins og Sádi-Arabar, séu þarna á svipuðum slóðum og farísearnir í Biblíunni.

„Þeir þóttust vera heilagri en aðrir og fylgdu öllu bókstaflega. Það skipti ekki máli hvort þeir trúðu í hjartanu, bara ef það leit út fyrir að þeir væru að gera allt eftir ritúalinu. Þetta er það sem fer svo mikið í taugarnar á öðrum, að þeir séu svona miklir hræsnarar. Af hverju ættu þeir að vera eitthvað heilagri en ég? Við gerum ekki ráð fyrir því að aðrir menn standi á milli okkar og guðs. En þessir menn koma og segja: Jú, við erum á milli ykkar og guðs.“

Klassísk hagsmunabaráttaMagnús hefur efasemdir um að við ættum endilega að vera alltof upptekin af DAISH-samtökunum. Þegar horft er til þess sem er að gerast í Mið-Austurlöndum ættum við kannski frekar að líta til Sádi-Arabíu og skoða hvað stjórnvöld þar eru að aðhafast.

Einmitt núna ríkir óvenju mikil spenna milli Sádi-Arabíu og Írans, þessara tveggja stóru ríkja Mið-Austurlanda sem líta á sig sem forysturíki súnní-múslima annars vegar og sjía-múslima hins vegar. Magnús er spurður hvort trúin skipti í raun miklu máli í þeim ágreiningi, eða hvort þar búi ekki frekar að baki hagsmunaárekstrar.

„Jú, að vísu má kannski segja að inn í þetta spili þessi mismunur, að þú ert öðru vísi en ég. En oftast hafa samskiptin milli súnnía og sjía verið náin og góð. Parturinn af spennunni núna er samt bara klassísk hagsmunabarátta þar sem hvort ríki fyrir sig reynir að hámarka eigin stöðu. Vissulega er það partur af sjálfsmynd þeirra að Sádarnir líta á sig sem málsvara súnní-múslima um allan heim, og svo er Íran stærsta sjía-ríkið. En á sama tíma eru þeir líka bara að hugsa um hver á að stjórna Persaflóa, hver getur ráðið olíuverðinu og hver getur stjórnað minni ríkjum sem eru á þessu svæði.“

Magnús segir Sádi-Araba hafa miklar áhyggjur af bættum samskiptum Írans við Bandaríkin, eftir að samningar tókust á síðasta ári.

„Sádarnir hafa notið mjög góðs af því að vera þessi óhagganlegi fulltrúi Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum og samstarfsmenn Evrópuríkja. Þannig að þeir óttast mjög þetta samstarf við Íran. Síðan eru efnahagsaðstæður í Sádi-Arabíu mjög slæmar orðnar. Olíuverð hefur hríðlækkað, atvinnuleysið hefur aukist en þeir eru að lofa þegnum sínum ákveðnum standard, sem þeir geta kannski ekki náð að uppfylla með þetta olíuverð núna. Þeir eru líka með nýjan konung sem er frekar reynslulítill og nýjan utanríkisráðherra, sem er ungur og reynslulítill. Með því að vekja upp Íransgrýluna eru þeir kannski fyrst og fremst að reyna að styrkja stöðu sína gagnvart eigin þegnum. Sama má segja um ævintýri þeirra í Jemen, sem er kannski þeirra Víetnam og verður til þess að sökkva þeim ofan í holu þarna sem þeir vita ekki hvernig á að komast upp úr.“

Allir eru að græðaHinn dyggi stuðningur Bandaríkjanna og Evrópulanda við Sádi-Arabíu vekur furðu, ekki síst í ljósi þess hve mannréttindaástandið þar í landi er grátlegt. Magnús segir að vopnakaup Sádi-Arabíu skýri þar flest.

„Sádarnir eru stærstu vopnakaupendur sögunnar og sífellt að kaupa ný og ný vopn á hverju einasta ári, sérstaklega frá Bandaríkjunum en líka frá Frakklandi til dæmis. Hvað eru þeir að gera með öll þessi vopn? Af hverjum stafar þeim ógn?“ spyr Magnús, og svarar: „Þeir eru bara að niðurgreiða iðnað á Vesturlöndum til að halda þeim góðum. Þegar Hollande fer til dæmis til Sádi-Arabíu og þeir eru að kaupa af honum fullt af Mirage-þotum, heldurðu að hann fari þá að tala við þá um mannréttindamál? Meðal Sáda-elítunnar er tiltölulega mikil ánægja með stöðuna eins og hún er. Og fólk er bara búið að sætta sig við þessa hræsni og þetta mótsagnakennda samband Vesturlanda við Sádi-Arabíu. Við erum öll að klóra hvert öðru á bakinu og allir eru að græða á þessu sambandi. Sérstaklega stóru iðnaðarríkin í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Enginn hefur sérstakan hag af því að breyta þessu núna. Og hvenær notar fólk mannréttindamál sem aðalástæðu til að ná fram breytingum? Það gerist eiginlega aldrei.“

Varðandi ástandið í Sýrlandi, þá sagðist Magnús Þorkell telja að eina vonin hljóti að felast í því að fulltrúar allra þeirra ríkja, sem eiga hagsmuna að gæta þarna, komi saman og ræði ágreiningsmál sín.

Hagsmunina upp á borðiðBæði Íran og Sádi-Arabía þurfi að koma þar að borðinu, líka Rússar og Bandaríkjamenn, Tyrkir og Ísraelar, auk annarra.

„Það þyrftu allir að hafa sína hagsmuni uppi á borðinu og ræða það frekar en að vera með baktjaldamakk. Finna leiðir til að þetta stangist ekki mikið á. Rússar eru til dæmis þar í lykilstöðu varðandi Sýrlandsstjórn og geta sett mikla pressu á Bashar al Assad. Þeir halda honum á floti svolítið. Ísraelar vilja líka gjarnan hafa Assad áfram, en við vitum ekki nákvæmlega hvað þeir eru að gera. En þeir sitja ekki bara álengdar og horfa á. Áður en uppreisnin braust út voru Sýrlendingar líka í miklum viðskiptum við Tyrki og eftir stríðið þarf einhver að hjálpa til við að byggja upp aftur. Og þá bíða Tyrkir. Þeir hafa greinilega veðjað frekar á Bashar en stjórnarandstöðuna.“

DAISH eða ÍRIS?DAISH er arabíska skammstöfunin á nafni samtakanna, sem nefna sig Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi, en á ensku er þetta ýmist skammstafað ISIS eða ISIL. S-ið stendur þar fyrir Sýrland en L-ið fyrir Levant, sem er svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Magnús stingur upp á að hér á landi noti menn skammstöfunina ÍRIS, en segir það vissulega geta komið sér illa fyrir konur sem heita Íris.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×