Íslenski boltinn

Fjölnismenn fóru illa með Þrótt í Reykjavíkurmótinu kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Flottur sigur hjá Fjölnismönnum í kvöld.
Flottur sigur hjá Fjölnismönnum í kvöld. Vísir/Vilhelm
Þróttarar eru nýliðar í Pepsi-deild karla í fótbolta í sumar en það var enginn úrvalsdeildarbragur á liðinu í kvöld þegar Þróttaraliðið steinlá á móti Fjölni í Reykjavíkurmóti karla.

Fjölnir vann 8-1 stórsigur á Þrótti í Egilshöllinni eftir að hafa verið 5-1 yfir í hálfleik. Liðin eru bæði að undirbúa sig undir tímabil í Pepsi-deildinni og svona stórsigur kemur því gríðarlega á óvart.

Þróttur komst samt í 1-0 í upphafi leiks og var yfir í fimmtán mínútur. Þróttaraliðið fékk síðan á sig fimm mörk á aðeins fimmtán mínútum. Tvö síðustu mörkin í leiknum komu síðan í uppbótartíma og eftir að Þróttur missti mann af velli. 

Gregg Oliver Ryder, þjálfari Þróttar, horfði ekki aðeins upp á sitt lið frá á sig átta mörk í þessum ótrúlega leik því liðið missti líka mann af velli með rautt spjald.

Valur vann 2-1 sigur á Fram fyrr í kvöld þar sem Andri Fannar Stefánsson og Haukur Páll Sigurðsson skoruðu mörk liðsins í fyrri hálfleik en Framliðið minnkaði muninn á lokamínútu leiksins.

Þetta voru fyrstu leikir liðanna í B-riðli Reykjavíkurmótsins og Fjölnismenn eru að sjálfsögðu í efsta sæti enda með markatöluna 8-1 eftir aðeins einn leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×