Íslenski boltinn

Fjölnismenn fóru illa með Þrótt í Reykjavíkurmótinu kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Flottur sigur hjá Fjölnismönnum í kvöld.
Flottur sigur hjá Fjölnismönnum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Þróttarar eru nýliðar í Pepsi-deild karla í fótbolta í sumar en það var enginn úrvalsdeildarbragur á liðinu í kvöld þegar Þróttaraliðið steinlá á móti Fjölni í Reykjavíkurmóti karla.

Fjölnir vann 8-1 stórsigur á Þrótti í Egilshöllinni eftir að hafa verið 5-1 yfir í hálfleik. Liðin eru bæði að undirbúa sig undir tímabil í Pepsi-deildinni og svona stórsigur kemur því gríðarlega á óvart.

Þróttur komst samt í 1-0 í upphafi leiks og var yfir í fimmtán mínútur. Þróttaraliðið fékk síðan á sig fimm mörk á aðeins fimmtán mínútum. Tvö síðustu mörkin í leiknum komu síðan í uppbótartíma og eftir að Þróttur missti mann af velli. 

Gregg Oliver Ryder, þjálfari Þróttar, horfði ekki aðeins upp á sitt lið frá á sig átta mörk í þessum ótrúlega leik því liðið missti líka mann af velli með rautt spjald.

Valur vann 2-1 sigur á Fram fyrr í kvöld þar sem Andri Fannar Stefánsson og Haukur Páll Sigurðsson skoruðu mörk liðsins í fyrri hálfleik en Framliðið minnkaði muninn á lokamínútu leiksins.

Þetta voru fyrstu leikir liðanna í B-riðli Reykjavíkurmótsins og Fjölnismenn eru að sjálfsögðu í efsta sæti enda með markatöluna 8-1 eftir aðeins einn leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira