Handbolti

Aron þjálfari: Frábær karakter í liðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Vísir/Valli

„Þetta var rosalegur leikur og þvílík spenna,“ sagði hás landsliðsþjálfari, Aron Kristjánsson, eftir spennusigurinn á Noregi í gær. Hann tók á fyrir leikmenn, þjálfara og áhorfendur.

„Bæði lið voru að spila nokkuð vel. Það voru mörg lítil atriði að falla þeim í vil lengi vel. Svo fengum við á okkur klaufalegar brottvísanir og þetta varð því aðeins erfiðara en ella. Við lentum í vandræðum með sóknina þeirra í fyrri hálfleik en vörnin þéttist er Guðmundur Hólmar kom inn á. Róbert kom inn af miklum krafti og kom með mikla orku. Það voru allir að skila sínu,“ segir Aron en hann var ánægðari með sóknina í síðari hálfleik.

„Þá náðum við auka hraðann og láta boltann ganga betur. Við verðum samt að nýta betur að vera manni fleiri og ef við hefðum gert það hefðum við unnið öruggar. Við munum fara vel yfir það.“

Þjálfarinn var eðlilega ekki ánægður með að liðið skildi ekki ná að klára leikinn er það komst þrem mörkum yfir í leiknum.

„Mér fannst við vera sjálfum okkur verstir. Klaufaleg brot og látum henda okkur af velli. Komum þeim inn í leikinn en höldum samt ró. Stillum upp og ráðumst á veikleikana í þeirra vörn. Það er frábær karakter í þessu liði eins og sást. Við undirbjuggum okkur vel og vorum að leggja gott lið frá Noregi. Menn verða að átta sig á því að þetta er gott lið. Okkur er því öllum létt því við vissum að þetta yrði gríðarlega erfiður leikur.“  Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira