Fótbolti

Sautján ár síðan fótboltalandsliðið vann tvo fyrstu leiki ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason skoraði sigurmarkið á móti Finnum.
Arnór Ingvi Traustason skoraði sigurmarkið á móti Finnum. Vísir/Adam Jastrzebowski

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir liði Sameinuðu arabísku furstadæmanna í vináttulandsleik í Dúbæ í dag.

Þetta verður annar leikur íslenska liðsins á fjórum dögum og einn af þremur sem liðið spilar í janúar en íslenska hópinn skipa leikmenn á Norðurlöndum og leikmenn sem eru að leita sér að liðum.

Íslensku strákarnir unnu 1-0 sigur á Finnum á miðvikudaginn var og skoraði Arnór Ingvi Traustason þá eina mark leiksins strax á sextándu mínútu. Það eru nú liðin sautján ár síðan að íslenska fótboltalandsliðið vann tvo fyrstu leiki sína á árinu en það varið árið 1999 þegar liðið vann vináttulandsleik við Lúxemborg (2-1) og leik við Andorra (2-0) í undankeppni EM.

Þjálfari íslenska liðsins var þá Guðjón Þórðarson. Ísland hefur tvisvar áður mætt Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Atli Helgason tryggði Íslandi 1-0 sigur í Dúbæ í mars 1992 og Guðmundur Benediktsson skoraði eina markið, í sínum fyrsta landsleik, þegar þjóðirnar mættust síðast í ágúst 1994.

Nú er að sjá hvort íslensku strákarnir nái að vinna sinn annan leik í röð en landsliðsþjálfararnir nota þessa þrjá leiki í janúar til að skoða leikmenn sem hafa verið að banka á dyrnar, bæði hjá byrjunarliðinu sem og hjá hópnum.

Framundan er Evrópukeppnin í Frakklandi þar sem allir íslenskir knattspyrnumenn vilja fá að spila. Það er því mikið undir hjá mörgum leikmönnum íslenska liðsins í leiknum í dag.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira