Innlent

Starfsmaður utanríkisráðuneytisins kominn til Fortaleza til að aðstoða íslenska parið

Kjartan Hreinn Njálsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Parið átti bókað flug úr landi úr landi frá alþjóðaflugvellinum í Pinto Martins, þaðan sem flugtengingar í Evrópu eru í gegnum Þýskaland og Portúgal.
Parið átti bókað flug úr landi úr landi frá alþjóðaflugvellinum í Pinto Martins, þaðan sem flugtengingar í Evrópu eru í gegnum Þýskaland og Portúgal. vísir

Starfsmaður utanríkisráðuneytisins er nú staddur í brasilísku borginni Fortazela þar sem hann mun aðstoða íslenskt par sem handtekið var milli jóla og nýárs, grunað um að hafa ætlað að smygla kókaíni úr landinu. Fulltrúi brasilísku alríkislögreglunnar sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að um umtalsvert magn kókaíns hafi verið að ræða, eða átta kíló.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að starfsmaðurinn hafi haldið til Brasilíu fyrir nokkrum dögum en hún gat ekki sagt til um hvort að starfsmaðurinn hefði haft samband við parið.

Urður segir ráðuneytið meta það í hverju tilfelli fyrir sig hvort þörf sé á að senda fulltrúa á vettvang í málum sem þessum. Hún vildi hins vegar ekki upplýsa um af hverju talið var nauðsynlegt að senda mann út í þessu tilfelli.

Markmið starfsmannsins er að meta aðstæður parsins og tryggja að þau fái réttláta málsmeðferð í Brasilíu.

Um er að ræða 26 ára karlmann og tvítuga konu en parið verður að öllum líkindum í gæsluvarðhaldi þar til mál þeirra fer fyrir dóm. Búist er við að málsmeðferð muni taka rúmlega ár.

Að því er brasilískir fjölmiðlar hafa greint frá, fundust fíkniefnin í fölskum botnum í ferðatöskum þeirra og í smokkum. Lögregla gerði upptæka ýmsa muni í eigu þeirra, meðal annars tvo farsíma og 1.600 íslenskar krónur.

Parið átti bókað flug úr landi úr landi frá alþjóðaflugvellinum í Pinto Martins, þaðan sem flugtengingar í Evrópu eru í gegnum Þýskaland og Portúgal. Vísir hefur ekki fengið svör við því hvert þau áttu flug né hvort talið sé að þau hafi ætlað með efnin til Íslands. Fólkið gæti átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira