Innlent

Vesturbærinn tengdur varaleið eftir rafmagnsleysi gærkvöldsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um tvær klukkustundir tók að tengja alla við rafmagn á nýjan leik.
Um tvær klukkustundir tók að tengja alla við rafmagn á nýjan leik. Vísir/GVA
Háspennustrengur sem tengir margar spennustöðvar í sunnanverðum Vesturbæ Reykjavíkur  bilaði í gærkvöldi og olli það rafmagnsleysinu sem fjölmargir íbúar Vesturbæjarins fundu fyrir.

Búist er við því að bráðabirgðaviðgerð dugi fram yfir helgi áður en að gert verður við strenginn.

„Það bilaði háspennustrengur sem liggur frá Meistaravöllum niður á háskólasvæðið,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Veitna í samtali við Vísi. „Það eru talsvert margar spennustöðvar tengdar þessum streng sem urðu þá rafmagnslausar og hús þeim tengd.“

Rafmagnsleysið náði allt frá Fornhaga að Öskjuhlíð en um tvær klukkustundir tók að tengja alla notendur við rafmagn eftir annarri leið.

„Spennustöðvarnar eru tengdar dreifikerinu eftir tveimur leiðum og verkefnið í gærkvöldi var því að tengja þær hverjar á fætur annarri eftir hinni leiðinni,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir enga ástæðu til að ætla annað en að þessi varaleið haldi en á mánudaginn hefst leit að því hvar bilunin í strengnum er nákvæmlega svo að gera megi við hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×