Innlent

Talsmaður starfsmanna álversins í Straumsvík segir móralinn innan fyrirtækisins skelfilegan

Ásgeir Erlendsson skrifar
Aðalforstjóri Rio Tinto Alcan upplýsti starfsmenn í vikunni að engar launahækkanir verði á þessu ári hjá öllum fyrirtækjum samsteypunnar til að bregðast breyttum markaðsaðstæðum.

Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna álversins í Straumsvík, segir samningaviðræður sem staðið hafa yfir að undanförnu í enn meira uppnámi vegna þessa.

„Þessi yfirlýsing lá í loftinu og við vorum búin að heyra af því að hugsanlega kæmi einhver harðari afstaða ef við værum ekki búnir að semja fyrir áramót,“ segir Gylfi.

Þannig að þú telur að þeir hafi vitað af þessu útspili sem kom nú í vikunni miklu fyrr?

„Já, þeir vissu af því. Það er borðleggjandi.“

Í upphafi mánaðarins hafi starfsmennirnir freistað þess að ná samkomulagi og reynt að gera ríkissáttasemjara kleift að leggja fram miðlunartillögu í málinu með því að gefa verulega eftir af sínum kröfum. Gylfi segir að álverið hafi hins vegar ekki verið tilbúið að gera slíkt hið sama.

„Þá var það svo óverulegt að það var alveg ljóst að þarna var enginn samningsvilji og menn ná ekki saman.“

Í ljósi þessarar stöðu sem komin er upp, hversu vongóður ertu um að samningar takist yfir höfuð?

„Það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að samningar náist.“

En hvernig er mórallinn innan fyrirtækisins?

„Hann er skelfilegur. Mér er sagt að það hafi verið hátt í 20 manns á nýliðanámskeiði. Það segir bara það að starfsmannaveltan er komin í eitthvað sem ekki áður hefur þekkst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×