Handbolti

Hafa aldrei unnið næsta leik eftir sigur á Norðmönnum á stórmóti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson í sigurleiknum á móti Noregi.
Róbert Gunnarsson í sigurleiknum á móti Noregi. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann 26-25 sigur á Noregi í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í Póllandi á föstudagskvöldið en eftir hvíldardag í gær mæta íslensku strákarnir Hvít-Rússum í dag.

Strákarnir geta náð sögulegum sigri á móti Hvíta-Rússlandi í dag. Það hefur verið hægt að treysta á sigur á móti Noregi á síðustu stórmótum en það hefur líka skapast sú hefð að íslenska liðið hefur aldrei unnið næsta leik á eftir sigurleik á móti norska liðinu.

Íslenska landsliðið hefur með sigrinum á Norðmönnum á föstudaginn unnið sex sigra í sjö leikjum á móti Noregi á stórmótum þar af alla fimm leiki liðanna frá eina tapinu á EM í Sviss 2006.

Íslenska liðið hefur tapað fjórum sinnum í næsta leik eftir þessa fimm sigra á norska landsliðinu en náði bestum árangri fyrir tveimur árum þegar liðið náði jafntefli við Ungverja. Það var í fyrsta sinn sem íslenska liðið tapaði ekki næsta leik eftir að hafa unnið Norðmenn á stórmóti.

Nú er bara að vona að strákarnir okkar haldi haus eftir sigurinn á Norðmönnum og klári leikinn á móti Hvít-Rússum í dag sem myndir ekki bara tryggja íslenska liðinu sæti í milliriðli heldur væri einnig öruggt að liðið myndi taka með sér tvö stig.


Sigurleikir á Noregi á stórmótum og næsti leikur á eftir:

EM í Danmörku 2014
31-26 sigur á Noregi
Næsti leikur: 27-27 jafntefli við Ungverjaland

EM í Serbíu 2012
34-32 sigur á Noregi
Næsti leikur: 32-34 tap á móti Slóveníu

HM í Svíþjóð 2012
29-22 sigur á Noregi
Næsti leikur: 24-27 tap á móti Þýskalandi

EM í Austurríki 2010
35-34 sigur á Noregi
Næsti leikur: 28-36 tap á móti Frakklandi

HM í Kumamoto 1997
32-28 sigur á Noregi
Næsti leikur: 25-26 tap á móti Ungverjalandi


Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira