Handbolti

Aron: Ömurlegt að fá á okkur næstum því 40 mörk á móti þessu liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson eftir leikinn.
Aron Pálmarsson eftir leikinn. Vísir/Valli
Aron Pálmarsson var tekin úr umferð stærsta hluta leiksins á móti Hvíta-Rússlandi í dag en sýndi styrk sinn þegar hann slapp úr gæslunni og endaði með 4 mörk og 6 stoðsendingar. Það dugði hinsvegar ekki til að íslenska liðið varð að sætta sig við svekkjandi tap.

„Mér líður náttúrulega bara ömurlega og það er ömurlegt að fá okkur næstum því 40 mörk á móti þessu liði," sagði svekktur Aron Pálmarsson eftir leikinn. Hvít-Rússarnir unnu leikinn 39-38.

„Þetta átti ekki að gerast en við bara leyfðum þessu að gerast og í staðinn fyrir að skipta um gír einhvern tímann í leiknum þá vorum við eitthvað að lulla þetta og því fór sem fór," sagði Aron.

Vörn íslenska liðsins var hripleik allan tímann en hvað klikkaði í varnarleiknum í þessum leik?

„Ég er ekki alveg með svarið við því. Mér fannst þeir klippa okkur svolítið í sundur og við vorum of seinir að skipta á klippingunum þeirra. Þeir eru með fínustu skyttur og nýttu sér það," sagði Aron.

„Þeir skora 39 mörk en þeir voru að skora langt utan af velli líka. Vörn og markvarsla voru arfaslök í dag," sagði Aron.

Íslenska liðið var í frábærri stöðu fyrir leikinn en er nú með bakið upp við vegginn fyrir lokaleikinn á móti Króatíu.

„Við verðum að vona að þeir fari ekki upp úr riðlinum þannig að þessi leikur endi á því að skipta ekki máli. Það er bara úrslitaleikur fyrir okkur eftir tvo daga," sagði Aron.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×