Innlent

Ákvæði um þjóðkirkju ekki verið rætt af stjórnarskrárnefnd

Una Sighvatsdóttir skrifar
Páll Þórhallsson formaður stjórnarskrárnefndar segir að fyrst verði að sjá hvort nefndin komi sér saman um þau fjögur ákvæði sem sett voru í forgang, áður en ræddar verði breytingar á fleiri ákvæðum stjórnarskrár.
Páll Þórhallsson formaður stjórnarskrárnefndar segir að fyrst verði að sjá hvort nefndin komi sér saman um þau fjögur ákvæði sem sett voru í forgang, áður en ræddar verði breytingar á fleiri ákvæðum stjórnarskrár.
Umræða um hvort ákvæði um þjóðkirkju verði í nýrri stjórnarskrá hefur ekki farið fram á vettvangi stjórnarskrárnefndar, en ný skoðanakönnun bendir til meirihlutastuðnings við aðskilnað ríkis og kirkju. Tafir verða á því að nefndin komi tillögum að stjórnarskrárbreytingum til Alþingis.

Lagt var upp með því að stjórnarskrárnefnd myndi leggja til breytingar á stjórnarskrá tímanlega svo unnt verði að samþykkja frumvarp þess efnis á þessu kjörtímabili. Nefndin hafði því sett sér það markmið að skila tillögum til forsætisráðherra áður en Alþingi kemur saman að nýju.

Nú er ljóst að svo verður ekki því þingstörf hefjast á þriðjudag en nefndin hefur enn ekki náð samkomulagi. Páll Þórhallsson formaður stjórnarskrárnefndar sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja tilgreina um hvaða atriði mestur ágreiningur væri. Málið væri á viðkvæmu stigi en enn væri þó stefnt að því að skila tillögum sem fyrst. Næsti fundur hefur ekki verið boðaður.



Í könnun Siðmenntar reyndust fleiri vera hlynntir því að núverandi ákvæði um þjóðkirkju yrði fellt út úr stjórnarskrá.
Misvísandi niðurstöður um afstöðu til aðskilnaðar

Fjögur mál eru í forgangi hjá nefndinni, það er þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta, auðlindir, umhverfisvernd og framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu. Aðrir liðir stjórnarskrár voru sett til hliðar að svo stöddu og segir Páll að ekki sé tímabært að taka þá til umræðu að svo stöddu.

Þar á meðal er ákvæðið um þjóðkirkju á Íslandi. Í nýrri könnun Siðmenntar kemur fram að fleiri eru hlynntir (47,7%) því en andvígir (29,7%) að ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi verði fellt út úr stjórnskrá. Þá eru allmargir (22,6%) sem láta sig það engu varða hvort þjóðkirkja sé nefnd í stjórnarskrá eður ei.

Spurt var: „Í 62. grein stjórnarskrárinnar er kveðið á um að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að þetta ákvæði verði fellt út úr stjórnarskránni.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnlagaráðs árið 2012 sagðist rúmur helmingur vilja hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá.
Þegar aðeins er litið til þeirra sem taka afstöðu eru því á bilinu 61-62% hlynnt því að taka ákvæðið um þjóðkirkjuna út.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni um tillögur stjórnlagaráðs árið 2012 var hlutfallið jafnara en fleiri (51,15) sögðust þá vilja sjá þjóðkirkju nefnda í stjórnarskrá en ekki (38,3%).  Þá var orðalag spurningarinnar þó ekki eins nákvæmt.

Spurt var: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?" en ekki tilgreint hvernig það ákvæði ætti að hljóma.

Katrín Jakobsdóttir segir að ákvæði um þjóðkirkju sé eitt af því sem þurfi að ræða í tengslum við endurnýjaða stjórnarskrá.
Umdeilt mál sem þarf að ræða

Bæði Vinstri græn og Samfylkingin hafa ályktað um að stefnt skuli að aðskilnaði ríkis og kirkju. Katrín Jakobsdóttir á sæti í stjórnarskrárnefnd. Hún segist líta svo á að þótt fjögur ákvæði stjórnarskrár séu í forgangi hjá nefndinni, þá bíði mikið verkefnið því öll stjórnarskráin undir áður en yfir lýkur, þar á meðal ákvæði um þjóðkirkju sem hafi verið töluvert umdeilt og þurfi því greinilega að ræða.

„Þessi skoðanakönnun sýnir auðvitað að þetta er eitt af þeim málum sem er mjög mikilvægt að taka til umræðu, bæði meðal almennings og á vettvangi stjórnmálanna," segir Katrín.

„Þetta er líka eitt af því sem ég tel mjög mikilvægt að, ef sett verði nýtt ákvæði um þessi mál í stjórnarskrá, þá verði það ekki samþykkt bara með gamla laginu heldur að við breytum breytingarákvæði stjórnarskrárinnar varanlega og allar breytingar fari bæði fyrir þing og þjóð."


Tengdar fréttir

Unga fólkið hafnar sköpunarsögunni

Í nýrri skoðanakönnun kemur fram að yfirgnæfandi hlutfall Íslendinga styður líknandi dauða. Trúuðu fólki fer fækkandi og meirihluti er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Framkvæmdastjóri Siðmenntar segir að hópar veraldlega þenkjandi fólks fari vaxandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×