Íslenski boltinn

Margrét Lára byrjar vel með Valsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar titli með Val sumarið 2008.
Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar titli með Val sumarið 2008. Vísir/Stefán

Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og nú nýr fyrirliðið hjá Val, byrjar vel í endurkomu sinni á Hlíðarenda.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði bæði mörk Valsliðsins í Egilshöllinni í dag í 2-0 sigri á KR í Reykjavíkurmótinu.

Margrét Lára hefur þar með skorað fjögur mörk í tveimur fyrstu leikjum sínum með Val en hún var einnig með tvennu í 3-0 sigri á Fjölni í fyrsta leik liðsins í Reykjavíkurmótinu.

Margrét Lára var í byrjunarliði Vals ásamt fjórum leikmönnum sem gengur til liðs við Hlíðarendaliðið í vetur en það eru þær Elísa Viðarsdóttir, Rúna Sif Stefánsdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir.

Margrét Lára skoraði mörkin sín á 40. og 59. mínútu og fór af velli eftir seinna markið sitt. Hún spilaði bara fyrri hálfleikinn í fyrsta leiknum og er því búin að skora þessi fjögur mörk á aðeins 105 mínútum sem þýðir mark á 26 mínútna fresti.

Margrét Lára Viðarsdóttir er að spila fyrstu leiki sína með Val frá tímabilinu 2008 þegar hún skoraði 66 mörk fyrir Valsliðið í deild (32), bikar (2), Evrópukeppni (14), deildabikar (12) og Reykjavíkurmóti (6)

Valur er eina taplaust liðið í B-riðli Reykjavíkurmótsins en öll liðin hafa spilað tvo leiki. Fjölnir og ÍR hafa þrjú stig en KR-konur eru enn stigalausar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira