Handbolti

Guðjón Valur reiður eftir tapið í gær

Henry Birgir Gunnarsson í Katowice skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson sést hér nýbúinn að þakka Hvít-Rússum fyrir leikinn í gær en svipur landsliðsfyrirliðans segir meira en mörg orð.
Guðjón Valur Sigurðsson sést hér nýbúinn að þakka Hvít-Rússum fyrir leikinn í gær en svipur landsliðsfyrirliðans segir meira en mörg orð. Vísir/Valli
Guðjón Valur Sigurðsson spilaði í gær sinn 50. leik á Evrópumóti. Hann hefur því náð þeim magnaða árangri að spila 50 leiki bæði á HM og EM. Hann skoraði líka sitt 1.700 mark fyrir landsliðið í gær. Því miður komu þessir glæstu áfangar í leik sem fyrirliðinn vill gleyma sem allra fyrst.

„Ég er vonsvikinn með okkar leik. Allir leikmenn liðsins eru 20-30 prósentum frá sínu besta,“ sagði Guðjón Valur í leikslok og var reiður. Réttilega. Þessi mikli stríðsmaður kann því illa að tapa leikjum. Hann gat ekki gefið neinar haldgóðar útskýringar á þessum hörmulega varnarleik liðsins gegn Hvít-Rússum.

„Við erum bara langt frá mönnum. Erum ekki að ná nógu mörgum stoppum eins og gegn Noregi. Það vantar allt frumkvæði í okkur. Þegar það vantar svona mikið upp á hjá okkur þá vinna þeir þetta hálfa skref sem er svo mikilvægt í lokin. Það er sama hvar er drepið niður fæti hjá okkur. Þetta er vont á bara alla línuna. Því miður.“

Þó að leikurinn hafi verið jafn þá var íslenska liðið skrefi á undan lengstum. Þegar þrettán mínútur voru eftir tókst Hvít-Rússunum að komast yfir og ná frumkvæðinu.

„Ég missti aldrei trúna. Ég vonaðist alltaf til þess að þetta myndi koma. Við vorum að hlaupa og leggja helling á okkur. Það sést á því að við skoruðum 38 mörk og sóknarleikurinn var ekkert vandamál hjá okkur í þessum leik,“ sagði fyrirliðinn en hann skoraði fimm mörk í leiknum.

„Í fyrri hálfleik eru þeir að keyra seinni bylgjuna og skora grimmt þannig. Við hleypum þeim síðan inn í leikinn með feilum er við komumst vel yfir. Svo í lokin þá skora þeir einfaldlega allt of auðveld mörk. Þegar við náum forskotinu þá köstum við boltanum frá okkur. Það eru vissulega allir að reyna og vilja en við erum ekki að taka skynsamlegar ákvaðanir og verðum að vera agaðri þar.“

Fyrirliðanum hefur oft orðið tíðrætt um á stórmótum að liðið sé komið með hlaupið í hnakkann. Það sé búið að koma sér í vonda stöðu sem það verði að vinna sig úr. Hann er líklega búinn að segja það oftar en hann vildi og þurfti að tala um það aftur í gær. Lokaleikur Íslands í riðlinum er gegn feiki­sterku liði Króatíu.

„Hlaupið verður kaldara og kaldara með hverri mínútunni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×